spot_img
HomeFréttirDaníel: Trúði því í sumar að við gætum náð langt

Daníel: Trúði því í sumar að við gætum náð langt

 
,,Við náðum ekki að leggja upp okkar leik né stoppa hraðaupphlaupin hjá KR og þeir skora á okkur einhver 50-60 stig bara úr hraðaupphlaupum í hverjum leik, það gengur ekkert,” sagði Daníel Guðni Guðmundsson leikmaður Stjörnunnar í samtali við Karfan.is eftir leikinn í Ásgarði í kvöld. Stjarnan hafnaði í 2. sæti Íslandsmótsins eftir 3-1 ósigur gegn KR í úrslitaseríunni en þetta var í fyrsta sinn sem Garðbæingar leika til úrslita.
KR hefur verið í þessum sporum margsinnis áður en Stjarnan þreytti sína frumraun í úrslitum í ár, skipti það máli í þessu einvígi?
 
,,Við höfum aðila innanborðs hjá okkur sem hafa verið hérna áður, við erum allir fullorðnir karlmenn og vitum hvað við þurftum að gera til að vinna en það gekk ekki í ár og þá er það bara næsta ár, það er ekkert öðruvísi,” sagði Daníel en hefði hann getað séð fyrir þennan árangur Stjörnunnar í sumar, að þeir myndu leika til úrslita?
 
,,Já, þegar ég samdi við Stjörnuna og sá hópinn okkar þá trúði ég því í sannleika sagt að við gætum náð langt. Við lendum hérna á móti góðu KR liði í úrslitum og svona er þetta bara stundum,” sagði Daníel sem hefur vakið verðskuldaða athygli með Stjörnunni undanfarið.
 
,,Já ég er alveg eins ánægður með mína eigin frammistöðu í vetur og ánægður með að hafa unnið mér inn byrjunarliðssæti hjá svona sterkum klúbb, þá er maður að gera eitthvað rétt og byggir bara ofan á þetta.”
 
Fréttir
- Auglýsing -