12:20
{mosimage}
(Daníel í leik með Þrótti gegn Reyni í 1. deildinni á síðustu leiktíð)
Bakvörðurinn Daníel Guðni Guðmundsson hefur ákveðið að ganga til liðs við Breiðablik úr röðum Njarðvíkinga. Daníel er Njarðvíkingur að upplagi en sagði í samtali við Karfan.is að þetta væri rétt ákvörðun á þessum tímapunkti enda hyggði hann á nám og búsetu á höfuðborgarsvæðinu og því lægi það beinast við að ganga í raðir Breiðabliks.
,,Helsta ástæðan er sú að ég er að flytja í bæinn og verð þar í námi næsta vetur. Það höfðu nokkur lið samband við mig en það lá beinast við að fara til Blika því þar þekki ég vel til Einars og strákanna í liðinu,” sagði Daníel sem kom frá Þrótti Vogum á miðri síðustu leiktíð inn í leikmannahóp Njarðvíkinga, lék þar 8 deildarleiki og gerði í þeim 2,8 stig að jafnaði í leik.
,,Ég skil við Njarðvíkinga í góðu og maður verður alltaf Njarðvíkingur í sér en aðstæðurnar eru bara þannig núna að ég tel þetta vera rétta ákvörðun. Það eru fáir leikstjórnendur í röðum Blika eins og er og þarna sé ég því möguleika á því að sanna mig í efstu deild,” sagði Daníel um þessi vistaskipti sín.
Daníel mun því heyja mikla baráttu um leikstjórnendastöðuna við Rúnar Inga Erlingsson, líka Njarðvíking að upplagi, en þessi kappar þekkjast vel úr yngriflokkunum í Ljónagryfjunni og unnu saman til ótal titla í yngriflokkunum.