Daníel Guðni Guðmundsson leikmaður Grindavíkur þekkir vel til liðanna sem hefja leik í undanúrslitum í kvöld þegar KR tekur á móti Njarðvík. Daníel og Grindavíkingar féllu út í 8-liða úrslitum gegn KR og Njarðvík er uppeldisklúbbur Daníels svo það lá beinast við að fá bakvörðinn til þess að virða fyrir sér þessa undanúrslitarimmu liðanna:
„Ég hlakka mikið til að fylgjast með þessu einvígi enda tvö skemmtileg lið að etja kappi. Njarðvík hefur bætt sig gríðarlega eftir áramót og Stefan er sömuleiðis ótrúlega góður en svona leikmann fær maður ekki að sjá á hverju ári hérna á Íslandi. Hann er búinn að setja yfir 30 stig að meðaltali í þessum leikjum gegn Stjörnunni og það verður forvitnilegt að sjá hvað Finnur hefur upp í erminni til þess að hægja á honum. Það er nánast ómögulegt að stoppa Stefan en möguleikarnir liggja í að ná að láta hann hafa fyrir öllu og takmarka skotnýtingu hans en ég býst við því að Bjössi og Darri fá líklega það hlutverk.
Svo er Njarðvík auðvitað með mann eins og Loga sem er reynslubolti og liðið þarf að hafa hann í toppstandi ætli þeir sér að vinna þetta einvígi. Snorri Hrafnkels var góður gegn Stjörnunni en hann vinnur þá hluti á parketinu sem ekki allir taka eftir og er gríðarlega mikilvægur fyrir Njarðvíkurliðið. Það verður að koma mikið framlag varnarlega frá Snorra, Hirti og Mirko því að Michael Craion er skrímsli undir körfunni en það verður skemmtilegt að sjá hvaða varnarafbrigði Frikki og Teitur munu nota til þess að halda honum niðri.
KR hefur vinninginn undir körfunni en Njarðvík fyrir utan, allavega þegar Pavel verður frá. Lykilmaður KR í þessari seríu, sérstaklega nú þegar Pavel er frá, er Helgi Magg. Hann var svakalegur gegn okkur í 8 liða úrslitum og ég tel að hann sé að fara halda áfram á sömu braut. Hann er leiðtogi og er að skila 40% 3ja stiga nýtingu í deild og 70% gegn okkur um daginn, svo að hann hefur mörg vopn sóknarlega. Svo má ekki líta framhjá leikmönnum eins og Brynjari Björns, Darra Hilmars, Ágústi Orra og Hirti Hrafni sem eru gríðarlega mikilvægir fyrir sín lið.
Einvígið mun velta á því hvort liðið nær að stilla varnaleikinn sinn betur og að halda aðalleikmönnum andstæðingsins í lágri skotnýtingu. KR spiluðu frábæra vörn undir körfunni gegn okkur í 8 liða úrslitum og það verður spennandi að sjá hvernig þeir ná að eiga við bakverði Njarðvíkur en það er þeirra helsta ógn sóknarlega. Að lokum hefur KR meiri reynslu inni á vellinum þó Njarðvík sé ríkari af henni í þjálfarateyminu. Hvort vegur meira er erfitt að segja en það verður að hafa hugfast að Pavel er allavega frá kvöld og ef hann kemur til baka í þessu einvígi þá verður hann ekki 100%. Við erum að tala um leikmann sem er að skila þrefaldri tvennu að meðaltali í deild og það gefur að skilja að KR mun sakna hans gríðarlega.
Það myndi gera svo mikið fyrir þetta einvígi að Njarðvík muni vinna í kvöld! Leikmenn sem hafa kannski ekki verið í aðalhlutverki verða að grípa tækifærið og skila framlagi því það mun vera gríðarlega mikilvægt í þessari seríu! Njarðvík er að koma sem lítilmagni í þetta einvígi og ég tel að þeir muni ná að sigra einn til tvo leiki. KR eru hinsvegar rosalega sterkir í ár og ég held að þeir fari alla leið.
Nú er bara fyrir körfuknattleiksáhugamenn að njóta að horfa á þessi lið berjast og fara á völlinn því stemningin þegar þessi lið eigast við er mögnuð.
Mynd/ [email protected] – Daníel Guðni telur KR fara alla leið í ár.



