Þór Akureyri hefur fengið veglegan liðsstyrk í hjónunum Danero Thomas og Fanney Lind Thomas en þau sömdu nýverið við félagið.
Á heimasíðu Þórsara sem stýrt er með styrkri hendi af Páli Jóhannessyni er rætt við Danero Thomas um vistaskiptin:
Danero Thomas gerði tveggja ára samning við Þór
Eins og heimasíðan greindi frá í gær þá hefur Þröstur Leó Jóhannsson ákveðið að skella sér í nám hér á Akureyri og leika með Þór. Annar leikmaður hefur einnig bæst við leikmannahópinn en það er Danero Thomas sem leikið hefur með KR, Hamar, Val og Fjölni undanfarin ár. Danero er fjölhæfur framherji sem kemur með mikla reynslu inn í leikmannahóp Þórs en þessi 29 ára leikmaður hefur gert 2 ára samning við félagið.
"Danero er hæfileikaríkur leikmaður sem mun styrkja liðið mikið í baráttunni framundan. Hann kemur úr sterku háksólaprógrammi Bandaríkjunum og þekkir vel íslenska boltann. Mitt mat er það að hann eigi töluvert inni sem leikmaður og ég ætla að ná því fram hjá honum. Hann ætlar að æfa vel í sumar og vera í sínu allra besti formi. Hann á eftir að vera mikilvægur fyrir okkur í vörn og sókn" segir Benedikt Guðmundsson þjálfari.
Við tókum nýjasta Þórsarann tali og hann hefur mikla trúa á verkefninu. En hvað varð til þess að hann ákvað að taka slaginn með Þór?
"Mér langar að hjálpa Þór að fara upp á við og taka þátt í spennandi verkefni næstu 2 árin. Einnig langaði mig að spila fyrir frábæran þjálfara en ég hef heyrt það frá mörgum að Benedikt sé frábær þjálfari. Þannig að ég er virkilega spenntur fyrir því að koma til Akureyrar."
Hefur þú áður komið til Akureyrar?
"Já, ég hef komið einu sinni til Akureyrar áður og líst rosalega vel á að búa á Akureyri með fjölskyldunni."
Hvað er það sem þú munt færa liðinu sem leikmaður?
"Ég mun koma með leiðtogahæfileika og hörku á báðum endum vallarins. Einnig vonandi sigur í þeim deildum sem við spilum í hverju sinni."
Eiginkona Danero er engin önnur en Fanney Lind Thomas sem leikið hefur með Hamri, Fjölni og Val. Hún hefur einnig leikið tvo A-landsleiki og ætlar hún að spila með kvennaliðinu og mun klárlega styrkja hópinn.
Heimasíða Þórs býður nýju leikmennina velkomna til Þórs og vonandi eiga þau eftir að líða vel hér í bænum okkar.



