spot_img
HomeFréttirDamon snýr aftur!

Damon snýr aftur!

Damon Johnson mun leika með Keflavík í Domino´s deild karla á næstu leiktíð en Keflavik.is greinir frá þessu í kvöld. Þá hafa Keflvíkingar einnig samið við Bandaríkjamanninn Titus Rubles. Damon er með íslenskt ríkisfang.
 
 
Á Keflavik.is segir:
 
„Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur komist að samkomulagið við Damon Johnson þess efnis að þessi mikla goðsögn spili með félaginu á komandi leiktíð ásamt því að aðstoða við ýmis verkefni tengd klúbbnum, þá aðallega yngriflokkum félagsins. Eftir að hafa komið til Íslands til að spila með B-liði félagsins í bikarkeppninni á síðasta tímabili vaknaði áhugi af beggja hálfu að Damon kæmi aftur til Íslands. Sjálfur hafði Damon mikinn áhuga á að taka eitt lokaár með Keflavík, liðinu sem gerði atvinnumannadrauminn hans að veruleika og nú er ljóst að það verður að veruleika. Verður ekki annað sagt en að eftirvæntingin sé mikil, bæði í herbúðum Keflavíkur sem og Damon sjálfs, því þó kappinn sé kominn af léttasta skeiðinu kemur mikil reynsla, sigurvilji og stemmning með kappanum sem vonir standa til að smitist til yngri leikmanna félagsins. Þá er það ekki síst vegna vilja Damon að koma að verkefnum tengdum yngriflokkum félagsins sem ákveðið var að gera þetta að veruleika.“
 
Rætt er við Damon á heimasíðu Keflavíkur þar sem m.a. kemur fram að hann lék síðast körfubolta sem atvinnumaður árið 2010. Sjá viðtalið hér.
 
Þá er Titus Rubles 204 sm hár leikmaður sem kemur úr Cincinnati háskólanum þar sem hann var með um 7 stig og 7 fráköst að meðaltali í leik.
 
 
Fréttir af www.keflavik.is
Mynd/ Damon í bikarkeppni KKÍ með B-liði Keflavíkur
  
Fréttir
- Auglýsing -