spot_img
HomeFréttirDallas og Miami leika til úrslita: Þrenningin með 69 af 83 stigum...

Dallas og Miami leika til úrslita: Þrenningin með 69 af 83 stigum Heat í nótt

 
Það verða Miami Heat og Dallas Mavericks sem leika munu til úrslita um NBA titilinn þetta árið en í nótt hafði Miami betur 80-83 gegn Chicago Bulls í United Center og Heat vann þar með einvígið 4-1. Dallas vann einnig sitt einvígi gegn Oklahoma 4-1. Úrslitarimma Dallas og Miami hefst svo aðfararnótt næsta miðvikudags.
Bulls voru við stjórnartaumana í fyrri hálfleik og leiddu með 9 stigum. Í síðari hálfleik virtist fátt benda til annars en að Bulls myndu fara með sigur af hólmi en þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka fóru Miami af stað. Síðustu eina og hálfa mínútna vann Miami 11-1! LeBron og Wade skelltu niður nokkrum þristum og voru fljótir að brúa þannig bilið, James kom svo Miami í 81-79 með teigskoti, brotið var á Rose sem setti aðeins annað vítið og Chris Bosh kom svo Miami í 83-80 af vítalínunni. Þá var röðin komin að Rose að freista þess að jafna metin með síðasta skoti leiksins, Miami lokuðu vel á hann og LeBron James varði skotið, efsta lið austursins úr leik og Miami leikur gegn Dallas um titilinn.
 
Derrick Rose, sem valinn var besti leikmaður tímabilsins, gerði 25 stig fyrir Bulls í leiknum. Hann tók einnig 5 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Luol Deng bætti svo við 18 stigum hjá Bulls. Þrenningin James, Wade og Bosh skoruðu 69 stig af 83 hjá Miami í nótt. LeBron James með 28 stig, 11 fráköst og 6 stoðsendingar. Dwyane Wade með 21 stig, 6 fráköst og 9 tapaða bolta og Bosh með 20 stig og 10 fráköst.
 
 
Mynd/ Margir hneyksluðust á þessari mynd sem fylgir fréttinni. Þrenningin stígur hér á svið í fyrsta sinn fyrir stuðningsmenn Miami og fannst mörgum nóg um ,,þingeyska-loftið" í Miami-mönnum þennan daginn.
 
Fréttir
- Auglýsing -