spot_img
HomeFréttirDallas og Lakers þurfa aðeins einn sigur enn

Dallas og Lakers þurfa aðeins einn sigur enn

10:01:22
Dallas Mavericks ýttu San Antonio Spurs út á brún hengiflugsins í nótt með sigri, 99-90, í fjórða leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og leiða nú 3-1. Þeir þurfa því aðeins einn sigur í viðbót til að tryggja sig áfram, líkt og LA Lakers sem lögðu Utah Jazz, 94-108. New Orleans Hornets neita hins vegar að játa sig sigraða gegn Denver Nuggets og minnkuðu muninn í rimmu liðanna niður í 2-1 með góðum sigri, 95-93. Þá hafa Miami Heat snúið einvíginu við Atlanta Hawks sér í hag með sannfærandi sigri, 107-78, og leiða nú 2-1 eftir að hafa tapað fyrsta leiknum.

 

Hetjudáðir Tony Parker, sem gerði 43 stig fyrir San Antonio gegn Dallas, dugðu ekki til sigurs og lítur út fyrir að stórveldi Spurs sé að líða undir lok eftir nær samfellda velgengni í rúman áratug. Parker gerði 31 stig í fyrri hálfleik, en í seinni hálfleik tóku Dallas við stjórninni og héldu henni til loka þrátt fyrir hetjulega baráttu Spurs á lokasprettinum.

 

Tim Duncan átti einnig góðan leik fyrir Spurs og skoraði 25 stig og tók 10 fráköst. Josh Howard var stigahæstur Dallas manna með 28 stig, Jason Kidd var með 17 stig, en Dirk Nowitzki hélt sér nokkuð til hlés með 12 stig og 13 fráköst.

 

Annar leikstjórnandi fór eins og herforingi fyrir sínum mönnum, Chris Paul, en með betri árangri. Paul skoraði 32 stig og gaf 12 stoðsendingar þar sem hann stýrði Hornets til sigurs, en tap hefði sett þá í gríðarlega erfiða stöðu.

Leikurinn var feikilega harður og ekkert gefið eftir og fóru fjórir leikmenn af velli með 6 villur áður en yfir lauk. Það sem helst breyttist frá síðustu leikjum var að sóknarleikur Denver var ekki nærri eins góður og munaði þar um að Chauncey Billups, sem hafði verið sjóðheitur, gerði einungis 16 stig. Hornets voru með þægilegt forskot þegar 3 mín voru eftir, en æsilegur lokasprettur Nuggets hleypti lífi í leikinn og hefði Carmelo Anthony getað stolið sigri á lokasekúndunum en skot hans geigaði.

Framherjinn David West átti einnig fínan leik fyrir Hornets þar sem hann skoraði 19 stig og Rasual Butler var með 17. Hjá Nuggets var Anthony með 25 stig og JR Smith með 14.

 

Miami Heat hafa nú endanlega kvittað fyrir stórtapið í fyrsta leiknum gegn Atlanta, en sigurinn í nótt var niðurlæging. Heat var með stjórn á leiknum allan tímann og þegar Hawks reyndu að klóra í bakkann í upphafi seinni hálfleiks fengu þeir bara aðra holskeflu yfir sig í staðinn.

Dwayne Wade gerði 29 stig í sigrinum auk þess sem að hann gaf 8 stoðsendingar og varði heil 4 skot. Jermaine O‘Neal skoraði 22 fyrir Heat og Mario Chalmers 15. Hjá Atlanta var fátt um fína drætti en Al Horford, Mike Bibby og Josh Smith gerðu allir 13 stig.

 

Lakers byrjuðu illa gegn Jazz þar sem Kobe Bryant sá um að draga vagninn og halda sínum mönnum inni, en strax í öðrum leikhluta þegar liðsfélagar hans fóru að láta finna fyrir sér, var aldrei spurning um hvernig færi. Lakers hertu takið og unnu loks sannfærandi sigur sem fer langleiðina að því að tryggja þeim farseðil í næstu umferð.

Bryant lauk leik með 38 stig, Pau Gasol var með 13 og 10 fráköst, Derek Fisher var með 12 og Lamar Odom var með 10 stig og 15 fráköst. Hjá Jazz voru það sem fyrr Carlos Boozer og Deron Williams sem fóru fyrir mannskapnum. Williams skoraði 23 stig og gaf 13 stoðsendingar og Boozer gerði 23 stig auk þess að taka 16 fráköst.

Tölfræði leikjanna

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -