spot_img
HomeFréttirDallas jafnaði: Klaufaleg lokasókn Heat

Dallas jafnaði: Klaufaleg lokasókn Heat

 
Dallas Mavericks hafa jafnað úrslitaeinvígið í NBA deildinni gegn Miami Heat, staðan er nú 2-2 og einn leikur eftir á heimavelli Dallas áður en einvígið færist yfir til Miami þar sem lokaspretturinn mun fara fram. Lokatölur í viðureign liðanna í nótt voru 86-83 Dallas í vil eftir æsispennandi og jafnan leik.
Þegar 6,7 sekúndur voru til leiksloka skelltu liðsmenn Dallas niður tveimur vítaskotum sem kom muninum í 86-83. Miami tóku leikhlé og freistuðu þess að jafna leikinn með þriggja stiga körfu. Dwyane Wade stóðst ekki prófið að þessu sinni heldur missti boltann þegar sendingin kom úr innkastinu, rétt áður en hann fór aftur fyrir miðju náði Wade að bjarga boltanum og Mike Miller náði skoti sem hitti ekki hringinn og Dallas fagnaði sigri. Klaufalegt hjá Wade sem eflaust nagar sig í handarbökin í dag.
 
Dirk Nowitzki lét ekki smávægileg veikindi aftra sér frá því að landa tvennu, 21 stig og 11 fráköst og 9 af 10 í vítum, önnur skotnýting Þjóðverjans hefur svo sem verið betri. Tyson Chandler mætti einnig með tvennu, 13 stig og 16 fráköst og Jason Terry gerði 17 stig. Hjá Miami var Dwyane Wade með 32 stig og 6 fráköst en LeBron James gerði 8 stig, tók 9 fráköst og gaf 7 stoðsendingar og nýting kappans hefur eflaust verið betri, 3 af 11 í teignum og 0 af 3 í þriggja. Chris Bosh bætti svo við 24 stigum og 6 fráköstum.
 
Liðin mætast í sínum fimmta leik aðfararnótt föstudags og að þeim leik loknum færist einvígið aftur yfir til Miami þar sem leikur 6 og leikur 7 (ef með þarf) munu fara fram.
 
Mynd/ Dirk var stigahæstur hjá Dallas í nótt en lék veikur. 
 
Fréttir
- Auglýsing -