spot_img
HomeFréttirDagur tvö á Scania Cup

Dagur tvö á Scania Cup

 
Hlutinir voru ekki að falla með 1997 strákunum í Fjölni í föstudagsleikjum þeirra. Þeir hafa samt verið að berjast vel og safna reynslu.
1996 lið Hauka lenti í erfiðum riðli og fyrri leikur þeirra á föstudeginum var erfiður. Eftir riðlakeppnina voru þeir búnir að bæta leik sinn mikið. Farnir að kunna á þetta eins og einn þjálfari sagði um þá. Í kvöldleiknum þá léku Haukar frábærlega og voru með unninn leik á móti heimamönnum í SBBK, en misstu hann niður á lokametrunum. Sigur í þeim leik hefði komið Haukum inn í átta liða úrslitin. Þetta var sorglegt fyrir Haukaliðið að klára ekki þennan skell. Það stefnir allt í það að SBBK leiki um verðlaunasæti á meðan Haukar leika um sæti 9 til 10. Af ýmsum ástæðum þurftu Haukarnir að ganga heim frá keppnisstað eftir leikinn þar sem rúta þeirra hafði lagt af stað án þess að taka þá með. Það var um hálftíma gangur til baka í myrkri í skólann þeirra.
 
 
1996 lið KR lék sinn fyrsta leik á föstudeginum kl. 6 að íslenskum tíma. Þeir þurftu að vakna tveimur tímum áður. Það má segja að KR strákar hafi mætt sofandi í leikinn og andstæðingur KR, hinir dönsku Hörsholmbúar komust í 14-0 og 18-2. KR náði síðan að minnka muninn niður í tvö stig en slök vörn og verri sókn á endasprettinum kom í veg fyrir sigur. Þetta súra tap þýddi að KR fengi mjög erfiðan andstæðing í forkeppni 8-liða úrslita. Kvöldleikur KR var á móti góðu og hávöxnu finnsku KFUM liði, KR strákar léku frábærlega í fyrstu tveimur lotunum og fram í miðja þriðju lotu er staðan var jöffn. Síðan fipaðist KR og leikurinn tapaðist með 13 stigum. KR leikur því um 9.-13. sæti.
 
 
1995 lið KR tapaði seinni leik sínum í riðlinum með 4 stigum. Sá leikur hefði auðveldlega getað farið á annan veg. Það voru því örlög KR hér að fara erfiðari leið að verðlaunum á þessu móti. Það verkefni hófst með góðum sigri á finnska liðinu Vilpas um kvöldið og þar með voru KR komnir í 8 liða úrslit á móti Danmerkurmeisturum Hörsholm.
 
 
Hetjur dagsins voru 1994 lið UMFN. Í rauninni má segja að UMFN sé að leika með 1994 og 1995 lið í þessari keppni. UMFN lék vel á fimmtudaginn, en föstudagsleikur þeirra á móti góðu Söder liði var frábær. Mjög góða umfjöllun um Söderleikinn má finna á heimasíðu UMFN.
 
 
Njarðvík lék 3-2 svæði á móti þeim sænsku. Söder var ekki að hitta vel að utan, höfðu ekki hugmynd um það hvernig ætti að brjóta niður vörn UMFN og þegar ætluðu að gera eitthvað þá sagði Njarðvíkurstálið og -hugarfarið stopp.
 
 
UMFN var ekki að hitta vel að utan, en það kom ekki að sök. Vel útfærð hraðaupphlaup voru mörg og góð, keyrslur inn í vörnina og samspil var til fyrirmyndar,sóknarfráköstun var frábær og þegar þurfti eitthvað þá kom það hvort sem það var frá byrjunarliðsmanni eða bekkjarmanni.
 
 
Hershöfðinginn í liðinu var ótrúlegur. Hef ekki fleiri orð um það. Hann var með margar stoðsendingar og sumar þeirra voru ótrúlegar og vöktu mikla hrifningu þeirra fjölmörgu sem horfðu á.
 
Þessi góður sigur þýddi að UMFN slyppi við kvöldleik og færi beint í átta liða úrslit. Þar yrði andstæðingurinn heimamenn sem lentu í öðru sæti í fyrra og skarta dreng upp á 209 cm. sem getur nær allar stöður á vellinum.
 
 
Að lokum þá var frábært veður í Södertaalje á föstudeginum langa, sem var langur fyrir sum íslensku liðin.
Fréttir
- Auglýsing -