Það hefur ekki verið neitt sérstaklega bjart yfir höfuðstað Vesturlands í vetur enda aðeins þrír sigrar í deildinni komnir í hús. Einn þeirra kom að vísu gegn heimamönnum í Stjörnunni í leik kvöldsins í Ásgarði. Það skorti ýmislegt í kvöld á öllum vígstöðum – húsið var nánast tómt og ekki snefill af fjósalykt. Stjörnumenn voru án Tomma sem á við hæleymsli að stríða og Jón Sverrisson, sem spilaði óvænt gegn Haukum í síðasta leik, var ekki í búning. Paxel var einnig fjarri góðu gamni og spilaði ekki með gestunum.
Liðin byrjuðu bæði tvö mjög sterkt varnarlega og lítið var skorað í byrjun. Þegar leikhlutinn var nálægt því hálfnaður var staðan 4-5 fyrir gestina! Heimamenn fundu þá loksins smá takt sóknarlega og komu sér í 19-8 forystu. Á þeim kafla gátu Skallar ekki keypt körfu – tapaðir boltar, fín vörn heimamanna og almennur klaufaskapur í bland. Maggi Gunn lagaði stöðuna fyrir lok leikhlutans með snöggum fimm stigum og staðan 19-15 að honum loknum.
Dagur Kár var vel tengdur í kvöld og var duglegur að keyra á vörn Skallagríms. Heimamenn voru fljótir að koma sér í 10 stiga forskot og fengu m.a. ódýr stig eftir tapaða bolta gestanna. Stjörnumenn voru einnig duglegir að keyra í bakið á gestunum eftir misheppnuð skot þeirra. Tracy var svolítið einmana sóknarlega fyrir Skalla en náði að minnka muninn í 39-32 eftir körfu góða og víti. Það dugði skammt og eftir flottan flautuþrist frá Shouse voru piltarnir frá Höfuðstaðnum komnir í frekar myrka og kulsæla holu, 45-32. Það er vondur staður fyrir þá sem hafa drauga vofandi yfir sér.
Gestirnir þurftu að girða sig í brók og mæta eins og lið í fallbaráttu inn í seinni háfleikinn. Dagur Kár var hins vegar maðurinn með áræðnina og kom Stjörnumönnum í 50-35. Þrátt fyrir tæknivillusöfnun heimamanna og frekar undarlegan kafla af þeirra hálfu skilaði það sér aðeins í þremur stigum fyrir gestina. Davíð Ásgeirs beindi mótlætinu í slæman farveg og safnaði villum eins og enginn væri morgundagurinn og heimamenn fengu ódýr stig af línunni í kjölfarið. Munurinn fór í tuttugu stigin þegar tæpar 4 mínútur voru eftir af þriðja leikhluta, 61-41 og leikurinn nánast búinn. Skallar létu bresta á með svæðisvörn en Dagur svaraði því bara um leið með þristi. Þarna var Hrafn þegar byrjaður að tína gutta inn á völlinn og einn af þeim, Brynjar Friðriksson, byrjaði strax að láta að sér kveða. Hann blokkaði Tracy glæsilega og setti einnig nokkur góð stig – þetta kallast að nýta tækifærið! Staðan var 69-51 eftir þrjá leikhluta og líkurnar á spennandi fjórða leikhluta eins og að vinna fyrsta vinning í Víkingalottóinu tvisvar í röð.
Skallagrímsmenn reyndu svo sannarlega að berja sig áfram og halda hausnum á frameftir leikhlutanum. Þeir spiluðu svæðisvörn áfram sem skilaði stundum ágætum árangri en ekkert gekk þó að naga niður muninn. Minni spámönnum fjölgaði inn á vellinum eftir því sem á leið eins og gengur og tókst öllum Stjörnumönnum að komast á blað í leiknum. Lauk leik með þægilegum 93-76 sigri Stjörnumanna.
Það er ýmislegt sem plagar leik Skallagríms. Liðið fékk 93 stig á sig í leiknum en samt var vörnin í raun skárri í kvöld en oft áður. Tapaðir boltar hafa verið og voru of margir og sóknarleikurinn álíka beittur og víkingasverð úr mýrarrauða! Tracy var sá eini sem ógnaði að ráði, setti 24 stig og hirti 18 fráköst. Daði og Egill komu næstir með 10 stig. Falldraugurinn fer að líkamna sig og útlitið svart, ekki síst í ljósi þess að ÍR-ingar nældu sér í tvö stig í kvöld.
Dagur Kár var augljóslega maður leiksins og spilaði af miklum krafti en jafnframt skynsemi. Hann skoraði 25 stig og gaf 6 stoðsendingar. Margir fleiri lögðu í púkkið, Shouse var með 17 stig og Marvin 15. Fyrrnefndur Brynjar nýtti þær 10 mínútur sem hann fékk mjög vel og skoraði 9 stig. Stjörnumenn sitja nú í þriðja sæti deildarinnar og ættu vel að geta haldið sér þar áfram.
Umfjöllun: Kári Viðarsson
Dagur Kár Jónsson hefur spilað afar vel í vetur og var áberandi bestur í leiknum í kvöld:
Þetta var svona tiltölulega auðveldur sigur gegn “sveitastrákunum“.
– Jájá, hann var það vegna þess að við mættum tilbúnir og framkvæmdum okkar leikkerfi vel og héldum því svo áfram allan leikinn.
Það var einmitt kannski mikilvægt að mæta tilbúnir – Skallagrímsmenn auðvitað að berjast á botninum og þurfa lífsnauðsynlega á stigum að halda.
– Algerlega, Skallagrímsmenn mæta alltaf baráttuglaðir og við þurftum eðlilega að hafa fyrir þessu þó svo þetta hafi endað í nálægt tuttugu stiga sigri.
Hvernig leggst framhaldið í þig – nú er þriðja sætið væntanlega markmiðið að lágmarki?
– Já, þriðja sætið hefur verið markmiðið lengi eða síðan KR og Stólarnir náðu að stinga svolítið af. Við horfum bara á það að bæta okkar leik og stefnum á að hafna í þriðja sætinu.
Haffi Gunn, aðstoðarþjálfari Skallagríms, var tekinn tali að leik loknum:
Er þetta búið hjá Skallagrímsmönnum, er öll von úti?
– Nei, ég vil ekki meina það. Það eru nokkrir leikir eftir – en við erum að gera okkur mjög erfitt fyrir. ÍR unnu í kvöld en við eigum Þór Þorlákshöfn heima á sunnudag og þá þurfum við einfaldlega að spila betur.
Sérðu eitthvað sérstakt í þessum leik sem uppá vantaði?
– Ég hélt að menn myndu mæta svolítið grimmari inn í leikinn – þetta er lið sem var að vinna okkur í bikarnum fyrir nokkrum dögum síðan en lendum 17-5 undir og skorum fáránlega lítið í byrjun. Menn voru hræddir við boltann og eins og menn væru að forðast hann eins og heitan eldinn sem er ekki líklegt til árangurs.
Það er svoítið margt að plaga liðið – það eru tapaðir boltar og vörnin ansi misjöfn og erfitt að eiga við þetta.
– Já þetta gengur svolítið þannig að við náum kannski mjög góðu stoppi í vörninni og náum einni góðri sókn en svo eru kannski næstu tvær varnir alveg skelfilegar og fáum á okkur þrist eða þriggja stiga sókn. Ég man bara varla til þess að við höfum náð þremur stoppum í röð! Það væri mjög gaman að ná að breyta þessu á sunnudaginn.
En það þýðir lítið annað en að berjast til enda.
– Jájá, við erum ekkert endilega að bjóða upp á fallegasta körfuboltann – við ætluðum að vera fastir fyrir í kvöld og láta finna fyrir okkur. Það er hins vegar spurning hvort að körfuboltinn hafi þurft að líða fyrir baráttuna í kvöld.



