spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaDagur Kár eftir leikinn gegn Stjörnunni "Komum hérna aftur og tökum oddaleikinn"

Dagur Kár eftir leikinn gegn Stjörnunni “Komum hérna aftur og tökum oddaleikinn”

Stjarnan lagði Grindavík í dag í átta liða úrslitum Dominos deildar karla, 85-69. Stjarnan er því aftur komin með yfirhöndina í einvíginu, 21, en næsti leikur liðanna er komandi þriðjudag 25. maí.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Dag Kár Jónsson, leikmann Grindavíkur, eftir leik í MGH.

Dagur Kár lofar oddaleik:

Það eru allir að skíta á sig yfir Valur-KR-eitthvað en það eru fleiri seríur í gangi og þetta er mjög áhugavert. Það er kannski enn pínu spes fyrir þig að koma og spila hérna og gegn litla bró? Þó það sé svolítið síðan þú varst með Stjörnunni, þú hefur gert það áður og allt það…

Nei í rauninni ekki. Það er komið það langt síðan að ég pæli lítið í því, þetta er bara eins og hver annar leikur. Ég er fyrst og fremst ósáttur með spilamennskuna okkar í dag.

Jájá. Til að byrja með hélt ég að Ægir ætlaði að skora 70 stig í leiknum, eins og þið höfðuð ekki séð hann spila áður…en síðan var vörnin kannski allt í lagi hjá ykkur eftir erfiða byrjun og það var kannski frekar sóknarleikurinn sem klikkaði, það var bara eins og þið væruð að reyna að spila körfubolta í stórsjó?

Já, við töluðum um það eftir fyrsta leikinn að við þyrftum að breyta því hvernig við nálguðumst leikina, hreyfa boltann miklu betur í sókn og við gerðum það virkilega vel í leik tvö en svo er eins og við færum aftur í gamla farið aftur í þessum leik og spilum bara nákvæmlega eins og í fyrsta. Mér fannst við bara ekki eiga séns á að vinna í dag.

Einmitt. Þetta var kannski svolítið þannig að þeir voru að spila hörkuvörn á ykkur, erfið skot sum hver og svo þegar þið fenguð loksins opið skot þá vildi það ekki niður. Þetta var svolítið þannig leikur.

Já, þetta helst í hendur held ég bara, spilamennskan okkar, þegar við erum lélegir varnarlega þá förum við að taka léleg skot og þetta er svona keðja sem heldur áfram…svo spilum við lélega vörn af því að þeir komast hratt upp völlinn.

Akkúrat, þetta verður svona vítahringur. Varnarleikurinn fór svo niður á við eftir því sem þeir komust meira yfir og þá hvarf þetta út í buskann.

Algerlega, en við þurfum bara að vinna einn útileik, við vorum virkilega góðir í síðasta leik á heimavelli og bara leiðinlegt að hafa farið aftur í sama farið en við snúum þessu bara aftur við og koma þá og klára þetta hérna!

Mér fannst stemmningin ekki nógu góð í þessum leik yfir höfuð…það er kannski bara ég?

Ég get náttúrlega bara talað fyrir okkur og það var klárlega ekki jafn mikil stemmning hjá okkur liði eins og var í síðasta leik, þar var bara virkilega góð stemmning og skilað sér í betri vörn og betri hittni, það vantaði þessa stemmningu í dag, ég veit ekki hvað það er en ég veit að hún kemur aftur á heimavelli og svo þurfum við bara að gera það einu sinni hérna.

Akkúrat. Þú ætlar að lofa mér því að jafna einvígið í næsta leik…? Við viljum fá oddaleik!

Ekki spurning, við komum hérna aftur og tökum oddaleikinn!

Sagði Dagur og gott að geta byrjað að hlakka til oddaleiks!

Viðtal / Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -