18:00
{mosimage}
(Daði)
Um þessar mundir er gleði og glaumur í Stykkishólmi og á miðvikudag þegar Lýsing og KKÍ stóðu að sameiginlegum blaðamannafundi fyrir bikarúrslitaleikina náði Karfan.is tali af Daða Sigþórssyni formanni KKD Snæfells. Síminn er rauðglóandi hjá Daða um þessar mundir en formaðurinn skemmtir sér vel og segir gaman að vera að uppskera fyrir alla erfiðisvinnuna sem stjórn deildarinnar hefur lagt á sig að undanförnu.
,,Já, það er miklu til tjaldað í Stykkishólmi þessa dagana enda mikið framundan hjá okkur, það er einstakt að fá að vera í þessum sporum,” sagði Daði kátur í bragði. Sjálfur kann Daði sitthvað fyrir sér í körfubolta enda gamall landsliðsmaður úr yngri landsliðum Íslands. ,,Ég tók nú aldrei þátt í svona alvöru leik en þetta er bara einstakt eins og ég segi að fá að taka þátt í þessu, nóg af verkefnum og maður vinnur alla daga í þessum málum og þegar maður er að uppskera eins og núna þá er bara gaman,” sagði Daði. En hvernig verður þetta hjá Snæfellingum fram að leik?
,,Hjá leikmönnunum er framundan lokaundirbúningur fyrir leikinn og það er mikilvægt að menn mæti ekki of stemmdir í Höllina eða of hræddir í leikinn. Varðandi umgjörðina þá veit ég að Hólmurinn verður tómur, það verða örugglega 70% af öllum Hólmurum sem mæta á leikinn. Þá verða sætaferðir úr Stykkishólmi og svo einkabílisminn eins og Egill Helgason segir,” sagði Daði léttur í bragði en við báðum hann að rýna aðeins í kvennaleikinn.
,,Ég verð að viðurkenna að þar sem Igor þjálfari Grindavíkur spilaði fyrir Snæfell og er mikill vinur okkar í Hólminum þá vona ég að Grndavík taki leikinn gegn Haukum. Annars vona ég að karlaleikurinn verði frábær skemmtun og fullt af fólki frá öllum liðum fjölmenni í Höllina. Svo vona ég bara að betra liðið vinni og að það verði okkar lið,” sagði Daði í samtali við Karfan.is en hann verður væntanlega önnum kafinn maður uns dómararnir hefja leik á sunnudag kl. 16:00.
Bikarúrslit 2008
Snæfell-Fjölnir kl. 16:00 í Laugardalshöll



