spot_img
HomeFréttirDaði: Búið að mikla þetta mál upp í fjölmiðlum

Daði: Búið að mikla þetta mál upp í fjölmiðlum

Daði Berg Grétarsson, fyrirliði ÍR, hefur verið mikið á milli tannanna á fólki í kjölfar atviks sem átti sér stað í Höllinni á Akureyri síðastliðinn föstudag. Daða og Mantas Virbalas, leikmanni Þórs frá Akureyri lenti saman með þeim afleiðingum að báðir voru reknir úr húsi.

Karfan sóttist eftir að ræða við Daða um málið eftir leik ÍR og KR í Dominos-deild karla í kvöld. Daði var tilbúinn að ræða við Körfuna og fór yfir atvikið og umræðuna í kjölfarið.

Daði var fyrsti spurður út í leik kvöldsins. ÍR sigraði KR í spennu leik, lestu meira um leikinn í umfjöllun Körfunnar.

,,Frábær tilfinning að klára jafna sterkt lið og KR. Við sýndum styrk okkar í dag, sérstaklega varnarlega, vorum heilt yfir góðir þeim meginn.“

Daði var stigalaus í leiknum og villaði út með fimm villur en sýndi góðan varnarleik annars að mati fréttaritara. Daði var spurður út í eigin frammistöðu í leiknum.

,,Ég spilaði fína vörn kannski, klaufalegt hjá mér að fá fimmtu villuna. Góð vörn er samt að halda sér inn á vellinum, ég er ekki nógu sáttur við að fá fimm villur, það finnst mér ekki góð vörn. Maður verður að halda sér inni á vellinum ef maður er að spila góða vörn.“

Næst var Daði spurður út í það sem gerðist á föstudaginn síðasta norður á Akureyri.

,,Ég hef ekki mikið að segja um málið. Það er búið að mikla þetta svolítið upp í fjölmiðlum og gera þetta að meira máli en þetta er. Ég snöggreiðist þarna og læt finna fyrir mér. Mér þykir það leiðinlegt, sérstaklega liðsfélaganna vegna, að bregðast þeim á þennan hátt. Annars er þetta búið og gleymt í mínum bókum.“

Daði var næst spurður út í vikuna eftir þetta og hvernig hefði verið að æfa með það í huga að hann væri líklegast að fara í leikbann.

,,Það var rosalega skrítið að æfa í vikunni. Ég vissi ekki hvort ég myndi spila eða ekki. Það var sagt við mig að ég myndi ekki fá að vita það strax (í byrjun vikunnar) og því kom ég mér bara í gírinn fyrir þennan leik. Ég ákvað því að ég væri að fara að spila leikinn, annað kæmi svo í ljós. Málið verður svo tekið fyrir í framhaldinu og ég tek því sem kemur.“

Daði var spurður hverju hann byggist við þegar niðurstaða fæst hjá aganefnd.

,,Ég veit að þetta er einn leikur í bann alveg pottþétt. Það kæmi mér mikið á óvart ef það verður meira en það, kannski tveir leikir.“

Daði kom svo næst inn á umræðu, sem átti sér stað á einhverjum stöðum, eftir leik hvort einhver hefði beint eða óbeint sagt honum að fara út í þessar aðgerðir á þessum tímapunkti í leiknum.

,,Sá þáttur er hlægilegur. Maður er ekkert að plana neitt svona. Þetta gerist í hita leiksins og svona getur gerst í íþróttum. Ég er ekki að réttlæta það sem gerðist en mér finnst þetta hafa verið miklað upp.“

Daði var að lokum spurður hvort að Borche, þjálfari ÍR, hefði sagt honum eitthvað sérstakt í kjölfar leiksins.

,,Við töluðum eiginlega ekkert um þetta eftir leik. Ég sagði bara við hann og liðsfélagana að mér þætti leiðinlegt að hafa látið reka mig úr húsi og baðst afsökunar, fleira var það ekki.“

Fréttir
- Auglýsing -