Grindvíkingar mættu með bakið upp við vegginn fræga í DHL-höll KR-inga í kvöld. Ekkert nema sigur var í boði fyrir nýsameinaða Ólafssyni og félaga úr Grindavíkinni. Kiddi stórskytta Friðriks og ritstjóri körfunnar voru ekki á einu máli um úrslit kvöldsins og lögðu pylsu og kók undir. Spennandi að sjá hvor þeirra meistara þarf að blæða að leik loknum! Pavel var ekki með í kvöld, ritstjóranum til hughreystingar og vonarglætu.
Bæði lið byrjuðu af krafti og voru vel tengd sóknarlega, ekki síst erlendu leikmenn þeirra. Heimamenn höfðu frumkvæðið framan af en gestirnir tóku svo við og leiddu með nokkrum stigum. Það var viðeigandi að staðan var hnífjöfn, 22-22 eftir einn fjórðung.
KR-ingar tóku á stuttan sprett fyrstu mínútur annars leikhluta. Craion skoraði þá að vild úr sniðskotum og Rodney var ekki alveg starfi sínu vaxinn varnarlega – frekar en flestir aðrir. Sóknarlega bætti Rodney það þó upp að hluta og með góðri aðstoð Odds komu Grindvíkingar sér aftur yfir 34-36 um miðjan leikhlutann. Í stöðunni 38-38 var orðið skemmtilega heitt í húsinu og umdeildir dómar að kynda vel í öllum. KR-ingar enduðu hins vegar vel, Helgi setti m.a. sinn fjórða þrist í jafnmörgum skotum og hefur enn ekki klikkað síðan í bikarleiknum. Staðan 48-42 í hálfleik.
Gestirnir mættu sprækir eftir hlé og Þorleifur splæsti í dæmigerðan Ólafssona-þrist. 5-0 sprettur gestanna hressti allmarga Grindvíkinga í húsinu en góð lið svara svona löguðu – ekki síst á heimavelli. Heimamenn bættu enn í og komu sér fljótlega í 10 stiga forskot. Gestirnir reyndu hvað þeir gátu – Óli bauð t.a.m. upp á varið skot á annarri hæð og náði meira að segja næstum því boltanum í kjölfarið! Sóknarlega var leikur Grindavíkur hins vegar átakanlega þunglamalegur og einn Ólafssona-þristur vel þeginn. Á meðan var einkum Craion enn illviðráðanlegur og 10 stiga munurinn eins og ókleifur múr. 73-62 var staðan eftir þrjá leikhluta.

Gestirnir voru enn við sama heygarðshornið í byrjun fjórða leikhluta og það breyttist reyndar ekkert er á leið. Það vantaði allt flæði og fátt gekk upp. KR-ingar höfðu öll tök á leiknum og þó svo að þeim hafi ekki tekist að auka við muninn að neinu marki voru engin teikn á lofti um áhlaup frá Grindvíkingum. Þegar 4 mínútur lifðu leiks pantaði Kiddi eina með öllu nema steiktum, mikið af hráum, hjá ritstjóranum. Skömmu síðar negldi Helgi einn einum þristinum niður, staðan 83-70 og ritstjórinn lofaði að greiða skuld sína strax eftir mánaðarmót. Lokatölur voru 94-80.
Grindvíkingar eru keppnismenn og þurfa ekkert að skammast sín fyrir sína frammistöðu. Jafnvel í fjarveru Pavels mættu þeir frábærum og vel mönnuðum ofjörlum sínum í þessari seríu. Það kemur tímabil eftir þetta tímabil. Rodney var atkvæðamestur gestanna með 17 stig sem og fráköst. Jón Axel og Ólafssynir komu næstir með 13-14 stig hver.
Heimamenn gerðu það sem þurfti í þessari seríu. Þeir eru án vafa ekki að missa sig í geðhæð þrátt fyrir flotta takta á sópnum. Þeir horfa auðvitað mun lengra en svo. Aldrei slíku vant voru tveir leikmenn langatkvæðamestir þeirra. Segja má að Craion hafi tvíhent sópinn og náð góðu gripi – var svakalegur með 38 stig og 12 fráköst! Helgi setti 22 stig, 10 fráköst og var með frábæra nýtingu.
Lykil-maður leiksins: Michael Craion – KR
Umfjöllun: Kári Viðarsson
.jpg)



