„Síðasta vika hefur liðið mjög hratt og þetta hefur verið frábær reynsla. Við höfum séð fullt af hlutum sem hafa opnað augu okkar fyrir því sem við þurfum að vinna að í okkar leik. Vonandi ljúkum við þessu verki með frábærum leik í kvöld,“ sagði Craig Pedersen þjálfari íslenska landsliðsins í samtali við Karfan.is á æfingu liðsins nú í morgun.
Eitthvað sérstakt í ferlinu sem hefur verið lærdómsríkara en annað til þessa?
„Bara hvernig þessi lið, þessir andstæðingar okkar lesa leikinn og eru meðvitaðir um það sem er í gangi á vellinum hverju sinni er mjög athyglisvert. Körfuboltagreind þeirra er á mjög háu stigi og þar getum við bætt okkur.“
Hvað með Tyrkina í kvöld, hvernig leggjum við þann leik upp?
„Við getum ekki gert stærri breytingar á t.d. varnarleik okkar en við getum fínstillt hann. Tyrkland er mjög gott lið með leikmenn sem hafa háa körfuboltagreind og þeir hafa leikið vel hér. Tyrkirnir eru stórir sem og önnur lið riðilsins en ég vona að við höldum áfram að skapa góð skot eins og við gerðum t.d. í fyrri hálfleik gegn Spáni og við skulum sjá hvert svoleiðis frammistaða getur farið með okkur.“
Hversu flott yrði það að landa sigri í síðasta leik mótsins?
„Það yrði mjög tilkomumikið, með smá heppni gætum við reyndar þegar verið með tvo sigra! En það væri frábært að ná í sigur og magnað að ljúka eftirminnilegri viku þannig jafnvel þó við værum ekki á leið upp úr riðlinum.“



