spot_img
HomeFréttirCraig um riðilinn sem Ísland leikur í undankeppni Ólympíuleikanna "Frábært tækifæri til...

Craig um riðilinn sem Ísland leikur í undankeppni Ólympíuleikanna “Frábært tækifæri til að halda áfram að spila gegn sterkustu liðunum”

Með góðum árangri í undankeppni HM 2023 náði Ísland í fyrsta skipti að vinna sér inn þátttökurétt í undankeppni Ólympíuleika, en aðeins 16 þjóðir Evrópu komust í pott sem dregið var úr í dag. Undankeppni fyrir leikana verður í tvennu lagi, en þær Evrópuþjóðir sem komust á HM 2023 koma inn í undankeppnina í seinni umferðinni.

Í þessum fyrri riðil keppninnar mun Ísland etja kappi við Tyrkland, Búlgaríu og Úkraínu, en leikið verður í Istanbúl dagana 12.-20. ágúst. Um er að ræða nokkuð samkeppnishæfan riðil fyrir Ísland, þar sem Tyrkland er samkvæmt Evrópulista FIBA í 11. sæti, Úkraína 15. sæti, Búlgaría 24. sæti og Ísland 26. sæti.

Karfan heyrði í þjálfara Íslands Craig Pedersen og spurði hann út í hvernig væri að fara inn í þessa nýju keppni og hvaða möguleika Ísland ætti á mótinu.

Hversu spennandi er að taka þátt í þessari keppni í fyrsta skipti og hvernig er hægt að líta á það sem framfarir fyrir íslenskan körfubolta?

“Það er mjög spennandi að taka þátt í undankeppni Ólympíuleikanna! Það eru bara sterk lið sem taka þátt og það gefur okkur tækifæri til að halda áfram að spila gegn góðum liðum og leikmönnum. Hvenær sem við getum tekið skref inn í stórt mót, eins og undankeppni Ólympíuleikanna, þá eru það miklar framfarir. Rétt eins og skrefið inn í Eurobasket og skrefin sem Ísland tók í lokaumferðum undankeppni HM.”

Hvernig líst þér á riðilinn sem Ísland er í, hvernig höfum við staðið okkur gegn þessum liðum undanfarin ár, hvar eru möguleikar okkar?

“Öll lið í þessum ÓL glugga eru sterk! Við höfum nýlega leikið tvisvar við Úkraínu og tvisvar við Búlgaríu fyrir nokkrum árum…. Allir 4 leikirnir voru jafnir. Auk þess fórum við í framlengingu gegn Tyrklandi á Eurobasket 2015… svo það verður áskorun og frábært tækifæri til að sjá hvort við getum náð góðum úrslitum í Istanbúl. Ennfremur gefur það okkur frábært tækifæri til að halda áfram að spila gegn sterkustu liðunum á meðan við eltum framtíðarmarkmið okkar.”

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -