spot_img
HomeFréttirCosta áfram í Síkinu

Costa áfram í Síkinu

Tindastólsmenn sitja ekki auðum höndum þó liðið sé dottið úr leik í Domino´s-deildinni því nú hafa þeir framlengt um eitt ár við þjálfaran José María Costa Gómez. Costa tók við Tindastól á miðri leiktíð og hans helsta verk á tímabilinu var að snúa við erfiðri byrjun Skagfirðinga og fór liðið inn í undanúrslit þar sem það mátti fella sig við 3-1 ósigur gegn Haukum í hörku rimmu.

Stefán Jónsson formaður KKD Tindastóls sagði við Karfan.is í kvöld að vinna væri á fullu hvað varðar leikmannamál liðsins. Aðspurður um framhaldið hjá Darrell Flake sagði Stefán stöðuna óljósa en Flake er nýkominn úr hnéaðgerð og spurning hvernig framhaldið á ferli hans verður. 

 

„Aðaláherslan var lögð á að halda Costa áfram, nú er það í höfn og við gefumst ekkert upp hér í Skagafirðinum,“ sagði Stefán sem horfir björtum augum til næstu leiktíðar. 

Mynd/ Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -