06:49:45
LeBron James og Cleveland Cavaliers eru komnir í úrslit Austurdeildarinnar eftir enn einn sigurinn. Þeir lögðu Atlanta Hawks í nótt, 74-84 og hafa því komist í gegnum fyrstu tvær umferðirnar án þess að tapa leik og hafa unnið alla átt leikina með a.m.k. 10 stigum, sem er met.
Á meðan hristu Dallas Mavericks af sér slyðruorðið eftir slæmt tap í síðasta leik og lögðu Denver Nuggets 119-117, þar sem Dirk Nowitzki fór á kostum. Staðan í rimmu liðanna er nú 3-1 fyrir Denver.
Cleveland er annað liðið til að „sópa“ andstæðingunum í fyrstu tveimur umferðunum frá því að fyrstu umferð var breytt árið 2003 þannig að vinna þarf fjóra leiki. Fyrsta liðið var Miami Heat sem sópaði New Jersey og Washington áður en þeir féllu úr leik gegn Detroit árið 2005.
Atlanta byrjaði að vísu betur í nótt þar sem þeir leiddu með sjö stigum eftir fyrsta leikhluta, 22-15, en Cleveland tók stjórnina eftir það. Munurinn varð þó aldrei afgerandi fyrr en undir lokin þar sem James var bæði í hlutverki skorara og skapara þar sem hann fann bæði Delonte West og Mo Williams á síðustu metrunum og Cleveland þarf nú að gera sig tilbúna í einvígi gegn Boston eða Orlando í úrslitum Austurdeildarinnar.
James var stigahæstur Cavs með 27 stig, West var með 21, Zydrunas Ilgauskas var með 14 stig og 10 fráköst og Williams var með 12 stig.
Hjá Hawks var Josh Smith með 26 stig, Joe Johnson 18 og Flip Murray 14.
Dallas náði að svara fyrir sig í rimmunni gegn Denver, en þeir síðarnefndu voru 3-0 yfir og hefðu getað sent Dallas í sumarfrí með sigri. Eftir miklar deilur í kjölfar síðasta leiks þar sem Denver vann með umdeildri lokakörfu varð allt vitlaust og Mark Cuban, eigandi Mavs, lenti m.a. í orðaskaki við móður Kenyon Martin. Leikurinn í nótt var einnig harður og mátti oft litlu muna að uppúr syði.
Denver var með forystuna framan af leik og það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta, þar sem Nowitzki varð sjóðheitur, sem Dallas fór að gera sig líklega. Þeir jöfnuðu þrisvar áður en Nowitzki kom þeim yfir með glæsilegu skoti þegar mínúta var til leiksloka og horfðu ekki til baka. Josh Howard, Carmelo Anthony og Nowitzki skiptust á að skora úr vítaskotum áður en Anthony skoraði úr mikilvægri 3ja stiga körfu þegar 3 sekúndur voru eftir og minnkaði muninn í eitt stig. Lengra komust þeir þó ekki því að Jason Terry skoraði úr víti í næstu sókn og þar við sat.
Stigahæstir hjá Dallas: Nowitzki var með 44 stig og tók 13 fráköst, Howard var með 21 stig og 11 fráköst og Jason Kidd skoraði 13 stig og tók 10 fráköst.
Stigahæstir hjá Denver: Anthony var með 41 stig, Chauncey Billups 21 og JR Smith 19.
ÞJ