spot_img
HomeFréttirCleveland lagði Washington í hörku slag

Cleveland lagði Washington í hörku slag

Ellefu leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt. Cleveland Cavalieres og Washington Wizards fóru í magnaðan framlengdan slag sem lauk með 140-135 sigri Cleveland. LeBron James kom leiknum í framlengingu með lygilegum hætti en við erum að tala um „fade away“ þrist sem fór í spjaldið og ofan í! Cleveland reyndust svo sterkari í framlengingunni. 

Bradley Beal fór fyrir Wizards með 41 stig, 8 stoðsendingar og 5 fráköst, Otto Porter Jr. bætti við 25 stigum og 6 fráköstum og John Wall splæsti í tvennu með 22 stig og 12 stoðsendingar. Hjá Cavs var Kevin Love stigahæstur með 39 stig og 12 fráköst og 3 stoðsendingar, ein af þessum þremur stoðsendingum var yfir endilangan völlin undir lok venjulegs leiktíma þar sem LeBron James jafnaði síðan metin með áðurgreindum þristi og kom leiknum í framlengingu. LeBron bætti svo við 32 stigum, 17 stoðsendingum og 7 fráköstum! 17 stoðsendingar í einum leik er persónulegt met hjá King James.

Toronto vann svo öflugan 118-109 sigur á LA Clippers þar sem DeMar DeRozan gerði 31 stig í liði Raptors en Blake Griffin var með myndarlega þrennu hjá Clippers með 26 stig, 11 fráköst og 11 stoðsendingar.

Gamall stórveldaslagur fór líka fram í nótt þar sem Lakers náðu í góðan 107-121 útisigur í Madison Square Garden gegn New York Knicks. Carmelo Anthony gerði 26 stig og gaf 5 stoðsendingar í liði Knicks en hjá sigurliði Lakers var Lou Williams með 22 stig af bekknum. 

Öll úrslit næturinnar

New York 107-121 Lakers
Wizards 135-140 Cleveland
Indiana 93-90 Oklahoma
Toronto 118-109 LA Clippers
Atlanta 95-120 Utah
Detroit 113-96 Philadelphia
New Orleands 111-106 Phoenix
Minnesota 113-115 Miami
Denver 110-87 Dallas
Memphis 89-74 San Antonio
Sacramento 107-112 Chicago
 

Myndbönd næturinnar 
 

Gamli seigur með fjögur blokk!

LeBron suddalegur á lokasprettinum í nótt

Hér er svo námsefni frá Reggie Jackson fyrir unga bakverði

Fréttir
- Auglýsing -