,,Chynna stígur ekki í löppina og líkast til eru krossbönd slitin hjá Hugrún. Þetta er alveg hrikalega fúlt,” sagði Ingi Þór Steinþórsson í samtali við Karfan.is nú rétt í þessu. Það var greinilegt að úrslitakeppnin byrjaði í gær þegar tveir lykilleikmenn meiddust hjá Snæfell í leiknum gegn Val og það frekar alvarlega, eins og sést á myndinni. Chynna Brown verður líklegast frá næstu leiki og óvíst hvort hún spili meira með liðinu.
,,Chynna er sárþjáð í ristinni og það er enga bólgu að sjá þannig að líkast til er það brot eða slit. Hugrún fékk einhverja þrjá leikmenn Vals á fótinn á sér. Dómarar leiksins leyfðu alltof mikla hörku sem fór yfir strikið. Meiðsli Hugrúnar og Chynnu foru slys en aðrir pústrar voru alltof miklir.” sagði Ingi Þór einnig. Hugrún Eva meiddist illa og er verið að bíða eftir segulómskoðun fyrir hana, til þess að sjá hversu alvarleg meiðsli hennar eru.
Það eru því risa skörð í lið Snæfells sem erfitt verður að fylla í ljósi nýju reglanna um að geta ekki ráðið nýjan kana í staðinn fyrir þann sem er meiddur. ,,Við erum núna án kana og þá eru möguleikar okkar klárlega minni en áður enda erum við ekki komin úr undanúrslitum,” sagði Ingi Þór enn fremur.



