spot_img
HomeFréttirChuck Daly látinn

Chuck Daly látinn

 14:20:14
Meistaraþjálfarinn Chuck Daly, sem stýrði m.a. Draumaliðinu til sigurs á ÓL 1992 og Detroit Pistons til tveggja NBA-meistaratitla, lést á heimili sínu í morgun eftir langvinna baráttu við krabbamein. Hann var 78 ára gamall.

 

Daly er með eftirminnilegustu og sigursælustu þjálfurum í sögu NBA en hann var m.a. fyrsti þjálfarinn til að vinna bæði ólympíugull og NBA-titil. Hans helsti styrkur var mannlega hliðin., eða að búa til lið úr leikmönnum þar sem allir höfðu sínu hlutverki að gegna. Ekki er hægt að segja annað en það hafi gengið bærilega því hann náði að bræða hinn sundurleita hóp rólyndismanna, sérvitringa og skaphunda, sem Detroit var, saman í eina gífursterka heild, að ógleymdu Draumaliðinu ´92 þar sem hann setti saman hóp af stærstu körfuknattleiksstjörnum veraldar og stýrði þeim til sigurs án þess að upp úr syði.

 

Daly byrjaði feril sinn sem aðalþjálfari árið 1981 þegar hann tók við starfinu hjá Cleveland, en honum var vikið úr starfi eftir hálft tímabil. 1983 tók hann við Detroit og var þar allt til 1992 þegar hann færði sig til NJ Nets þar sem hann var í tvö ár. Hann lauk svo þjálfaraferlinum með tveimur árum hjá Orlando Magic frá ´97 til ´99.

 

Sigurhlutfall hans var 638 sigrar á móti 437 töpum, en hann var valinn í Frægðarhöll körfuboltans árið 1994. Þremur árum síðar var hann valinn í hóp 10 bestu þjálfara á 50 ára afmæli NBA deildarinnar.

Leikmenn og þjálfarar hafa lýst yfir sorg og samúð sinni með fjölskyldu Dalys, þar á meðal Doug Collins, fyrrverandi þjálfari Detroit og Chicago Bulls, sem vann með honum um tíma. „Hann var ótrúlega mikill heiðursmaður með mikla reisn. Hann var bæði lærifaðir og vinur minn. Hann kenndi mér mikið og sýndi mér og fjölskyldu minni mikinn stuðning. Mér þótti mjög vænt um hann og mun sakna hans mikið.“

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -