Topplið Vals í 1. deild karla klárar þetta tímabil án bandaríska leikmannsins Chris Woods sem er meiddur. Woods meiddist í viðureign Vals og Hauka í síðustu umferð deildarinnar og er kominn í gips á fæti. Woods er fótbrotinn en Ágúst Björgvinsson þjálfari Vals sagði hafa gengið á ýmsu þetta tímabilið hjá þessum magnaða leikmanni.
,,Chris er mjög vandaður drengur sem hefur verið að spila vel í vetur eins og í rauninni allt liðið. Það hefur gengið á ýmsu hjá honum frá því hann kom til landsins. Í fyrsta æfingaleik rétt fyrir mót tognaði hann aftan í læri og varð frá nokkrum æfingum og gat ekki beit sér á fullu í fyrstu deildarleikjunum. Í janúar lenti hann í bílveltu og meiddist á vinstri öxl og var frá æfingum en spilaði meiddur. Nú er hann fótbrotinn og verður frá keppni næstu 8-12 vikur og því er ljóst að hann mun ekki geta leikið meira með okkur,” sagði Ágúst en Woods hefur gert 23,1 stig og tekið 9,1 fráköst að meðaltali í leik með Val.
,,Við búum vel að vera með góðan hóp og stráka sem hafa verið mjög duglegir í vetur. Hópurinn okkar er mjög samstilltur og hann mun þjappa sér enn meira saman við þetta mótlæti, bara upp með sokkana og áfram gakk.”
Mynd úr safni/ Torfi Magnússon – Woods með Val í Lengjubikarnum gegn ÍR.



