spot_img
HomeFréttirChris Paul kastaði leiknum frá Clippers

Chris Paul kastaði leiknum frá Clippers

Chris Paul mun vafalítið reyna að gleyma leik næturinnar í snarhasti en nokkuð óhætt er að segja að þessi öflugi leikmaður hafi klúðrað leiknum fyrir Clippers gegn Thunder í nótt. Oklahoma tók 3-2 forystu í einvíginu gegn Clippers með 105-104 sigri þar sem hinn reyndi leikstjórnandi Chris Paul gerði sig sekan um þrjú alvarleg mistök á lokasprettinum. Oklahoma refsaði þessum feilsporum Paul með sigri. Þá tókst Washington Wizards að minnka muninn í 3-2 gegn Indiana Pacers.
 
 
Oklahoma 105-104 LA Clippers
Oklahoma 3-2 LA Clippers
 
Russell Westbrook gerði 38 stig í liði oklahoma og tók einnig 5 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Kevin Durant bætti við tvennu með 27 stig og 10 fráköst. Hjá Clippers var Blake Griffin með 24 stig og 17 fráköst. Á lokasprettinum missti Chris Paul boltann frá sér í tvígang, seinna skiptið var í lokasókninni en þar á undan braut hann á Russell Westbrook í þriggja stiga skoti svo segja má að allar verstu aðstæður sem Paul gat hugsað sér hafi komið upp í leiknum.
 
Indiana 79-102 Washington
Indiana 3-2 Washington
 
Pólverjinn Marcin Gortat fór á kostum í liði Wizards í nótt með 31 stig og 16 fráköst og John Wall bætti við 27 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum. David West var atkvæðamestur í liði Pacers með 17 stig og 6 fráköst. Wizards jörðuðu frákastabaráttuna í leiknum 62-23 og er þessi 39 frákasta munur sá mesti í leik í úrslitakeppninni síðan árið 1985.

Tilþrif næturinnar:
  
Fréttir
- Auglýsing -