Örvhenta fallbyssan í Hveragerði, Chelsie Schweer hefur spilað fjóra leiki fyrir Hamar í Dominosdeild kvenna og strax vakið fádæma athygli á sér fyrir stórskotasýningar í hverjum og einum af þeim. Áhrif hennar á leik liðsins eru svo mikil að nú eru Hvergerðingar farnir að eygja möguleika á sæti í úrslitakeppninni í vor.
Schweers hefur bætt sig í hverju leik sem hún spilar og ef þetta er “normið” hjá henni þá verður gaman að fylgjast með Hamarsliðinu það sem eftir lifir af deildarkeppninni. Hún tekur eitt þúsund armbeygjur þegar henni leiðist og er massaðri en allir leikmenn karlaliðs Hamars skv. Hallgrími þjálfara liðsins. Ef þið kíkið á Twitter síðu hennar sjáið þið hana í armbeygjum með hendur og fætur á körfuboltum. Eðlilegt?
En það er sjaldnast eðlilegt fólk sem skarar fram úr í íþróttum. Tölfræðin hennar er utan úr geimnum. 51% í 2st skotum, 54% í 3st skotum og 86% í vítum. 8 fráköst í leik og 4 stoðsendingar. Hún er með 44,4 í PER, sem er það hæsta í deildinni (rétt fyrir ofan Lele Hardy) í 32,4% nýtnihlutfalli. Skorar 1,489 stig per sókn sem er það hæsta í deildinni einnig.
Þróunin er búin að vera upp á við. Í sínum fyrsta leik með Hamri setti hún upp nokkuð mennskar tölur eða 25 stig með 19 í framlag og 47,6 eFG%. Í næstu þremur leikjum fljúga tölurnar upp eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Hún endaði síðasta leik gegn KR með 37 stig og 40 framlagsstig í 83,3 eFG%.
Læt fylgja með myndband frá Leikbrot.is með samantekt úr nokkrum leikjum hennar fyrir Hamar.



