spot_img
HomeFréttirCeltics komnir langleiðina í úrslit NBA - Unnu þriðja leikinn gegn Orlando

Celtics komnir langleiðina í úrslit NBA – Unnu þriðja leikinn gegn Orlando

Bosston Celtics eru komnir með annan fótinn í úrslit NBA eftir öruggan sigur á Orlando Magic í nótt, 94-71. Boston leiðir einvígið 3-0 og þarf aðeins einn sigur í viðbót.
 
Eins og í fyrstu tveimur leikjunum voru það Celtics sem byrjuðu betur og náðu 16 stiga forystu strax í fyrsta leikhluta og misstu aldrei dampinn eftir það. Rajon Rondo keyrði Boston-menn áfram og allir skiluðu sínu, m.a. hinn baráttuglaði Glenn Davis sem skoraði 17 stig af bekknum og var stigahæstur í liðinu.
 
Hjá Orlando var fátt um fína drætti þar sem Dwight Howard var með 7 stig og Rashard Lewis, sem hefur leikið hræðilega í þessari rimmu, var aðeins með 4. Vince Carter og Jameer Nelson voru með 15 stig hvor.
 
Orlando virkuðu mjög andlausir í þessum leik og greinilegt að töpin tvö á heimavelli hafa hrist verulega upp í liðinu sem tapaði ekki leik í fyrstu tveimur umferðum úrslitakeppninnar. Þeir eiga mikið verk fyrir höndum og þurfa að skrifa nýjan kafla í sögu NBA ætli þeir sér áfram því að ekkert lið hefur hingað til náð að sigra í einvígi eftir að hafa lent 3-0 undir.
 
Celtics eru hins vegar að toppa á hárréttum tíma og virðist allt stefna í að þeir séu á leið í úrslitin í annað skiptið á þremur árum.
 
Á Vesturströndinni eru það LA Lakers og Phoenix Suns sem eru að berjast um að komast í úrslitin og Lakers leiðir 2-0, en þriðji leikurinn í er kvöld.

 
Fréttir
- Auglýsing -