Boston Celtics unnu Orlando Magic í fyrsta leik liðanna í úrslitum Austurdeildar NBA í kvöld, 88-92, en leikurinn fór fram í Orlando. Þetta var fyrsta tap heimamann í úrslitakeppninni, en þeir svifu í gegnum fyrstu tvær umferðirnar án vandræða.
Boston byrjuðu leikinn mun betur þar sem þeir skelltu í lás í vörninni og náðu að halda vel aftur af Dwight Howard, sem var með einungis 13 stig, 12 fráköst og 7 tapaða bolta.
Boston komst mest upp í 20 stiga forskot, en Magic náðu að klóra í bakkann undir lokin. Þeir minnkuðu muninn niður í 2 stig á lokasekúndunum, en tíminn var einfaldlega of tæpur.
Ray Allen (á mynd) hefur svo sannarlega sýnt að enn býr mikið í hans gömlu fótum og var með 25 stig fyrir Celtics í leiknum, en Paul Pierce, annar gamall og góður, kom næstur honum með 22 stig.
Hjá Orlando var Vince Carter með 23 stig og Jameer Nelson með 20.
Svo lítur út sem vikuhvíldin sem Magic fengu eftir að leggja Atlanta um daginn hafi ekki skilað sér á réttan hátt þar sem þeir voru lengi í gang, en þeir ættu að mæta tilbúnir í næsta leik, sem verður einnig á þeirra heimavelli.



