Valsarar unnu öruggan 84-130 sigur á Þórsurum í kvöld þegar liðin mættust í 10. umferð 1. deildar karla í körfuknattleik. Valsarar byrjuðu leikinn betur en heimamenn og smá saman skildu leiðir, Valsarar byggðu upp hægt og bítandi forskot á heimamenn. Heimamenn virtust vera enn í jólafríi á meðan Valsmenn með Calvin Wooten í fararbroddi léku við hvern sinn fingur. Leikurinn náði aldrei neinu flugi og Valsmenn fögnuðu því öruggum 84-130 sigri.
Leikurinn tafðist um korter vegna veðurs en löng og erfið ferð gestanna virtist ekki sitja mikið í þeim, því Valsarar tóku strax frumkvæðið í leiknum. Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar en um miðjan fyrsta fjórðung náðu Valsmenn sjö stiga forskoti, 8-15 sem varð til þess að Sigurður G. Sigurðsson aðstoðarþjálfari Þórs tók leikhlé til að vekja strákanna. Leikhléið virtist ekki hafa nein áhrif á leikmenn Þórs, sem fundu sig hvorki í vörn né sókn. Valsmenn náðu fínu forskoti undir lok fyrsta fjórðungs og leiddu leikinn með 11 stigum, 20-31 áður en fjórðungnum lauk.
Flestir í húsinu bjuggust við að heimamenn myndu vakna til lífsins í öðrum leikhluta en þeim varð ekki að ósk sinni heldur héldu gestirnir áfram að nýta skot sín vel og virtust skemmta sér konunglega. Heimamenn aftur á móti virtust áhugalausir, spiluðu arfaslaka vörn og áttu í miklum vandræðum með misgóða svæðisvörn gestanna. En stærsti partur í sóknarleik heimamanna var að drippla og taka misgóð skot í staðinn fyrir að láta boltann ganga á milli manna. Valsmenn nýttu sofanda hátt heimamanna í vörn og nýttu hvert skotið á fætur öðru. Að lokum voru Valsmenn búnir að ná 27 stiga forskoti, 34-61 þegar liðin gengu til búningsklefa.
Í síðari hálfleik breyttist lítið. Gestirnir frá Hlíðarenda héldu sínu striki áfram, nýttu skot sín vel og þá sérstaklega Calvin Wooten sem setti hvert skotið niður á fætur öðru enda átti á góðan leik og setti niður 53 stig. Lítið líf var í heimamönnum sem létu dómara leiksins fara í pirrunar á sér sem bitnaði klárlega á leik heimamanna en hvorki vörn né sókn var svipur að sjón í kvöld. Valsmenn hreinlega léku sér í kvöld og fögnuðu því öruggum 84-130 sigri og hefðu sigurinn hæglega orðið stærri hjá gestunum.
Umfjöllun: Sölmundur Karl Pálsson