spot_img
HomeFréttirCalvin fyllir skarð Terry í Hertz-hellinum

Calvin fyllir skarð Terry í Hertz-hellinum

ÍR-ingar hafa sagt upp samningum við Terry Leake Jr og þess í stað samið við Calvin Henry. Ástæðan er sú að ÍR-ingar telja sig þurfa „aðra tegund“ leikmanns eins og Örvar Þór Kristjánsson þjálfari ÍR orðaði það pent í samtali við Karfan.is.
 
 
„Terry gerði margt gott fyrir okkur og við erum honum þakklátir fyrir hans framlag en hann er ekki rétti leikmaðurinn fyrir okkur. Við teljum okkur þurfa öðruvísi tegund af leikmanni og vonandi er Calvin það púsl sem okkur vantar,” sagði Örvar.
 
Calvin Henry útskrifaðist frá Mercer háskólanum 2010 og var þar með 10.5 stig, 6.6 fráköst og 2.6 varin skot að meðaltali á lokaárinu sínu. Síðan þá hefur hann spilað meðal annars í Þýskalandi og Ástralíu.
 
„Við bindum miklar vonir við þennan leikmann og vonandi kemur hann til með að styrkja okkur í þeirri hörðu baráttu sem framundan er,“ sagði Örvar og bætti við. „Það er alltaf áhætta sem fylgir svona skiptum en við erum bara brattir og fullir tilhlökkunnar. Leikmenn mínir gera sér grein fyrir því að enginn einn leikmaður er að fara gera þetta fyrir okkur heldur þurfa allir að spýta í lófana og bæta í,“ sagði Örvar og vildi þakka Sverri Þór Sverrissyni þjálfara Grindavíkur fyrir Icelandair punktana.
 
„Ég fékk að nota alla aukapunktana hans í flugið enda átti hann svo mikið af þeim blessaður,“ sagði Örvar á léttu nótunum. „Það er vonandi að þessu sé nú lokið hjá okkur, það er aldrei gott að þurfa að standa í þessum skiptum en núna er bara að krossa fingur og vona það besta,“ sagði Örvar að lokum.
 
ÍR-ingar mæta liði Snæfells í kvöld og verður spennandi að sjá þann athyglisverða slag.  Það er risastórt kvöld framundan í Dominos deild karla og hvetjum við alla til þess að fjölmenna á völlinn.
 
Mynd/ Calvin Henry verður með ÍR í kvöld.
  
Fréttir
- Auglýsing -