spot_img
HomeFréttirByrjunarlið Stjörnunnar með 89 stig í sigri á Grindavík

Byrjunarlið Stjörnunnar með 89 stig í sigri á Grindavík

Stjarnan sótti tvö stig í Mustad-höllina í kvöld með 77-96 útisigri á Grindavík. Heimamenn hótuðu í þriðja leikhluta að gera þetta að alvöru lokaspretti en Garðbæingar fóru vel með fjórða leikhluta og unnu öruggan sigur. Fjölbreytt og gott framlag byrjunarliðmanna Stjörnunnar vó þungt í kvöld á meðan Grindavíkingar hefðu mátt mæta grimmari í sínar aðgerðir og þá sérstaklega á varnarendanum en 96 stig er það næstmesta sem þeir hafa fengið á sig á heimavelli í vetur, aðeins Þór Akureyri hefur gert betur með 97 stig í fjórðu umferð deildarinnar.

Liðin fóru hnífjöfn upp úr startblokkunum en þar sem heimamenn fundu ekki eldmóðinn í vörninni komust Stjörnumenn í 16-24 eftir sjö mínútna leik. Grindvíkingar færðu þá varnarbeltið upp um gat og ekki vanþörf á lausgyrtum buxunum og fyrir vikið náðu þeir 7-2 spretti í lok fyrsta leikhluta og staðan 23-26 fyrir Stjörnuna að honum loknum.

Eysteinn Bjarni Ævarsson fór vel af stað hjá Stjörnunni í kvöld með 13 stig á 15 mínútum í fyrri háflleik en það er aðeins stigi minna en hans stigahæstu leikir á tímabilinu en hann hefur í tvígang skorað 14 stig í vetur í deildinni fyrir Stjörnuna, gegn Snæfell og Þór Þorlákshöfn.

Stjörnumenn voru með frumkvæðið allan fyrri hálfleik, heilt yfir meiri ákefð í bláum í vörninni og heimamenn í Grindavík oft hirðulausir í sínum aðgerðum og mesta mildi að munurinn var ekki nema fjögur stig eða 45-49 í háflleik.

Téður Eysteinn var með 13 stig í hálfleik hjá gestunum og þeir Hlynur Bæringsson og Anthony Odunsi voru báðir með 12 stig en hjá heimamönnum í Grindavík var Lewis Clinch með 13 stig og Ólafur Ólafsson með 11.

Skotnýting liðanna í hálfleik:
Grindavík:
Tveggja 65% – þriggja 9% (1-11) og víti 66%
Stjarnan: Tveggja 46% – þriggja 33% og víti 90%

Stjörnumenn settu upp skotsýningu í upphafi síðari hálfleiks, fjórar sóknir í röð smelltu þeir niður þristum og komust fljótlega í 51-67 og þessi fína byrjun gestanna lauk þegar tæknivilla var dæmd á Dag Kár í liði Grindavíkur. 6-18 byrjun og allt útlit fyrir að nú væru Stjörnumenn búnir að gera út um leikinn. Grindvíkingar spyrntu við á hárréttum tíma og héldu Stjörnunni í aðeins fjórum stigum næstu fimm mínútur með öflugum varnarleik! Staðan 63-73 að loknum þriðja leikhluta og útlitið orðið nokk bjartara fyrir Grindvíkinga.

Munurinn var jafnan um tíu stig í fjórða leikhluta og síðasta spölinn reif Stjarnan muninn upp í 19 stig og lokatölur reyndust 77-96. Byrjunarliðsmenn Stjörnunnar voru allir með 12 stig eða meira í kvöld og stigahæstur var Anthony Odunsi með 21 stig og Hlynur Bæringsson tók far með tvennuvagninum með 18 stig og 11 fráköst. Eysteinn Bjarni Ævarsson átti sinn besta leik í vetur með Stjörnunni með 19 stig og 4 fráköst.

Hjá Grindavík var Ólafur Ólafsson stigahæstur með 26 stig og 6 fráköst og Lewis Clinch bætti við 19 stigum og 6 fráköstum.

Tölfræði leiksins

Grindavík-Stjarnan 77-96 (23-26, 22-23, 18-24, 14-23)

Grindavík: Ólafur Ólafsson 26/6 fráköst, Lewis Clinch Jr. 19/6 fráköst, Dagur Kár Jónsson 11, Ingvi Þór Guðmundsson 8/6 fráköst, Þorleifur Ólafsson 5, Ómar Örn Sævarsson 4, Þorsteinn Finnbogason 2/4 fráköst, Jens Valgeir Óskarsson 2, Sverrir Týr Sigurðsson 0, Kristófer Breki Gylfason 0, Magnús Már Ellertsson 0, Hamid Dicko 0.
Stjarnan: Anthony Odunsi 21, Tómas Heiðar Tómasson 19/6 fráköst, Eysteinn Bjarni Ævarsson 19/4 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 18/11 fráköst/6 stoðsendingar, Marvin Valdimarsson 12/8 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 5/6 fráköst, Ágúst Angantýsson 2, Egill Agnar Októsson 0, Óskar Þór Þorsteinsson 0, Brynjar Magnús Friðriksson 0, Tómas Þórður Hilmarsson 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0.

Fréttir
- Auglýsing -