spot_img
HomeFréttirByrjunarlið Stjörnuleiksins tilbúin - Iverson inni

Byrjunarlið Stjörnuleiksins tilbúin – Iverson inni

Byrjunarliðin fyrir stjörnuleik NBA eru komin á hreint, en leikurinn fer fram í Cowboy‘s Stadium í Dallas þann 14. febrúar. Það heyrir helst til tíðinda að Allen Iverson var kjörinn í byrjunarlið Austurdeildarinnar þrátt fyrir að hafa átt erfitt uppdráttar í vetur þar sem hann er aðeins með tæp 15 stig að meðaltali í leik.
 
Iverson hefur verið að berjast við meiðsli og er ekki viss um að taka þátt, en með honum í byrjunarliðinu eru LeBron James, sem fékk flest atkvæði allra leikmanna, Dwayne Wade, Kevin Garnett og Dwight Howard.
 
Í Vesturdeildinni slapp NBA við skrekkinn þar sem bakverðirnir Steve Nash og Chris Paul skutust upp fyrir Tracy McGrady, sem hefur varla spilað neitt í vetur og hefur verið settur út úr liði Houston Rockets.
 
Nash verður í byrjunarliðinu ásamt Kobe Bryant og í framlínunni eru Amare Stoudamire, Carmelo Anthony og Tim Duncan sem slapp naumlega fram úr „heimamanninum“ Dirk Nowitzki.
 
Búist er við að um 80.000 manns mæti á leikinn, en fari svo verður það mesti fjöldi sem nokkru sinni hefur horft á körfuboltaleik.
 
Varamenn liðanna eru valdir af aðalþjálfurum allra liða og verður sá hópur kynntur nk. fimmtudag.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -