spot_img
HomeFréttirBurton skaut Grindavík í kaf: Snæfell Bikarmeistari karla 2010!

Burton skaut Grindavík í kaf: Snæfell Bikarmeistari karla 2010!

 
Snæfell tryggði sér Bikarmeistaratitilinn 2010 með fræknum 11 stiga sigri á Grindavík, 92-81, í Laugardalshöllinni í dag. Grindavík byrjaði leikinn betur og höfðu forskotið eftir fyrsta leikhluta en eftir það tók snæfell við bilstjórasætinu og leiddu leikinn nánast allt til enda. Sean Burton fór á kostum í liði Snæfells og segja má að hann hafi skotið Grindavík í kaf með heilum 36 stigum og þar af 5 þriggja stiga körfur og 71% nýtingu í tveggja stiga skotum. Hann var í lok leiksins útnefndur Maður leiksins. Næstu menn á blað hjá Snæfell voru Sigurður Þorvaldsson með 14 stig, Jón Ólafur Jónsson með 12 stig og Hlynur Bæringsson með 10 stig og heil 19 fráköst. Hjá Grindavík var Brenton Birmingham stigahæstur með 17 stig en næstir voru Þorleifur Ólafsson og Darrel Flake með 16 stig hvor.
Það voru Grindvíkingar sem byrjuðu leikinni betur og höfðu náð 1-6 forskoti þegar um það bil þrjár mínútur voru liðnar af leiknum. Snæfellingar svöruðu því hins vegar með næstu 6 stigum leiksins og þar með var leikurinn byrjaður af krafti. Grindvíkingar svöruðu þó strax fyrir sig og höfðu frumkvæðið þar til þrjár mínútur voru eftir þegar Snæfell komst yfir 12-11. Liðin skiptust á að leiða leikinn það sem eftir lifði fyrsta leikhluta og það var Grindavík sem hafði yfir þegar flautað var til loka hans, 18-20.
 
Grindvíkingar skoruðu fyrstu 6 stig annars leikhluta og höfðu náð 8 stiga forskoti áður en Snæfellingar svöruðu þegar tæplega þrjár mínútur voru liðnar, 26-20. Snæfell var að fara illa að ráði sínu í sóknarleik sínum og skutu oft erfiðum skotum fyrir utan þriggja stiga línuna sem kostaði þá þann mun sem var á liðunum. Þeir komu þó fljótt til baka og þegar rúmlega fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum höfðu þeir jafnað, 30-30. Það var svo ekki liðin nema rúmlega mínúta þegar Snæfell var búið að snúa leiknum algjörlega sér í hag og skorað 13 stig gegn engu frá Grindavík, 36-30. Grindavík hleypti þeim þó ekki lengra en það og minnkuðu muninn smám saman þar til flautað var til hálfleiks en þá munaði þremur stigum á liðunum, 44-41.
 
Stigahæstur í hálfleik í liði Snæfells var Sean Burton með 12 stig en næstir var Jón Ólafur Jónsson með 10 stig og Hlynur Bæringsson með 9 stig og 8 fráköst. Hjá Grindavík var Þorleifur Ólafsson með 11 stig en næstir voru Brenton Birmingham með 9 stig og Darrel Flake með 8 stig.
 
Snæfell skoraði fyrstu fjögur stig þriðja leikhluta og höfðu því yfir 48-41 strax í upphafi seinni hálfleiks. Grindavík svaraði þó með næstu fjórum stigum og þannig stóðu tölur næstu mínúturnar. Bæði lið voru að spila góðan varnarleik og skotin vildi ekki detta. Þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu Snæfellingar ennþá fjögurra stiga forskot, 51-47. Nær hleypti þeir Grindvíkingum ekki fyrr en þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum þegar Guðlaugur Eyjólfsson setti niður stóran þrist og kveikti allhressilega í stuðningsmönnum Grindavíkur, 56-54, og Snæfell tók leikhlé. Það var svo aftur Guðlaugur sem var að verki þegar Grindavík komst yfir í fyrsta skiptið í þriðja leikhluta, 56-57. Snæfell lét það þó ekki slá sig útaf laginu og höfðu náð forskotinu aftur stuttu seinna. Þegar ein mínúta var eftir af leikhlutanum höfðu þeir náð fjögurra stiga forskoti aftur, 67-63. Grindvíkingar fengu seinasta skot þriðja leikhluta en tókst ekki að nýta það og því höfðu Snæfellingar fjögurra stiga forskot fyrir loka leikhlutan, 69-65.
 
Fyrstu mínúturnar í fjórða leikhluta voru grunsamlega rólegar hjá báðum liðum og það var ekki fyrr en eftir þrjár mínútur af leik að liðin fóri að raða niður stigunum. Guðlaugur Eyjólfs setti niður enn einn þristinn sem Snæfell svaraði um hæl og þá tóku Grindvíkingar leikhlé, 74-69. Þegar loka leikhlutinn var hálfnaður höfðu Snæfellingar ennþá þriggja stiga forskot en Grindavík færðist nær og nær eftir því sem leið á. Það var hins vegar Sean Burton sem alltaf tókst að koma til bjargar þegar forskotið var að hverfa. Stemmingin hvarf smám saman úr Grindavíkurliðinu og Snæfell gekk á lagið. Þegar tvær mínútur voru eftir var forskot Snæfells komið upp í 7 stig. Emil Jóhannsson átti stórkostlega innkomi undir lok fjórða leikhluta og skoraði tvær gríðarlega mikilvægar þriggja stiga körfur sem fóru lang leiðina með að klára leikinn fyrir Snæfell. Það munaði 10 stigum á liðunum þegar Grindavík tók leiklé til þess að leggja línurnar fyrir lokamínútuna, 87-77. Sean Burton tók var sendur þrisvar sinnum á línuna á þrjátíu sekúndum á lokamínútunni þar sem hann skilaði 5 stigum og tryggði þannig sigur Snæfellinga, 92-81.
 
Ljósmyndir/ Jón Björn Á efri myndinni eru Snæfellingar með sigurlaunin sín, Subwaybikarinn, en á neðri myndinni fær Ingi Þór þjálfari Snæfells veglega tolleringu.
 
Umfjöllun: Gísli Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -