Hamarsmenn fóru vestur á Snæfellsnes og mættu þar Snæfelli í Fjárhúsinu Stykkishólmi í leik 16 liða úrslita Subwaybikarsins. Marvin Valdimarsson lék ekki með Hamri vegna skírnar á erfingjanum og Ágúst Björgvinsson þjálfari valdi að fara með kvennaliði Hamars í þeirra bikarleik á móti KR.
Sean Burton setti fyrstu 3 stigin og gaf tóninn fyrir Snæfell í byrjun sem komust í 10-2 og svo í 21-7 og voru með yfirburði á vellinum í sókn og vörn þar sem mikið var um varin skot eða “feis” eins og sumir segja og Sean hafði sett 4/5 í þristum kominn með 12 stig. Snæfell leiddi 32-16 eftir fyrsta hluta og var eins og Hamar hefðu gefið leikinn fyrirfram þrátt fyrir góðann baráttuvilja leikmanna.
Snæfell komst í 48-24 í öðrum hluta með áttundu þriggja stiga körfu Sean Burton, af 10, sem var þá búinn að jafna það sem hann setti í síðasta leik í þristum. Hjá Hamri var Andre Dabney hinn spræki að halda utan um spil sinna manna þó að framlag beggja liða dreifðist vel á milli leikmanna. Staðan í hálfleik var 66-31 fyrir Snæfell í leik kattarins að músinni og fátt annað að segja um gang leiksins.
Eftir fyrri hálfleikinn var Sean Burton með skotsýningu og var kominn með 32 stig þar af 10 þriggja stiga skot af 12 reyndum. Sigurður Þorvalds var kominn með 12 stig. Hlynur 8 fráköst. Í framlagi Hamars var Andre Dabney kominn með 14 stig og 4 fráköst. Svavar Pálsson með 5 stig og 4 fráköst.
Snæfell var komið í 86-45 og eins og áður sagði lítil mótstaða úr Hvergerði. En af Sean Burton var það að frétta að gæinn setti niður sína 13. þriggja stiga körfu og var kominn með 42 stig seinni part þriðja hluta með 87% nýtingu. Hamarsmenn áttu betri leikhluta og voru liðin jöfn að skori framan af en Snæfell átti smá sprett í lokin og staðan í þriðja hluta var 30-22 en í heildina 96-52.
Snæfell gáfu eftir og voru ekki að keyra eins mikið og fyrr í leiknum þar sem vænleg staða þeirra var orðin 109-69 um miðjann fjórða hluta en Hamar hélt uppteknum hætti í sinni baráttu og reyndu hvað þeir gátu og voru liðin að skora jafnt í fjórða hluta. Snæfell vann leikinn auðveldlega 130-76 og sigur Snæfells var aldrei í hættu þar sem Sean Burton var í ruglinu setti niður 55 stig og 16 af 20 þristum sínum og spurning hvort menn fari í bækurnar og kíki á metin. Svona til gamans í lokin þá er Sean nýkominn úr leik þar sem hann setti 8 af 12 þristum og 42 stig og er þá úr tveimur leikjum kominn með 24 þrista niður af 32 sem gerir um 75% nýtingu.
Aðrir með framlag fyrir Snæfell voru Jón Ólafur með 15 stig og 9 fráköst, Hlynur 12 stig, 18 fráköst, 9 stoðsendingar, Sigurður 12 stig og Pálmi 10 stig. Hjá Hamri var Andre Dabney þeirra svo mjög sprækastur með 29 stig og 8 fráköst. Svavar Pálsson var með 12 stig.
Texti: Símon B. Hjaltalín.



