spot_img
HomeFréttirBurst í Röstinni - Stjarnan minnkaði muninn í 2-1

Burst í Röstinni – Stjarnan minnkaði muninn í 2-1

Garðbæingar eru enn á lífi eftir að hafa kjöldregið deildarmeistara Grindavíkur í Röstinni í kvöld, lokatölur voru 65-82 Stjörnuna í vil. Bláir Garðbæingar mættu í stóru stráka buxunum í kvöld, léku stíft og tóku hressilega á heimamönnum sem tóku á mótlætinu með versta móti… með því að hamast í dómurum leiksins. Jovan Zdravevski átti sterkan leik fyrir Stjörnuna, setti 18 stig og tók 5 fráköst en var iðinn við að berja sína menn áfram og halda þeim á tánum. Hjá Grindavík var Þorleifur Ólafsson með 16 stig og vísast eini í gulu sem lét ekki slá sig út af laginu. Gulir geta þó horft björtum augum fram á veginn, þeirra versta frammistaða á tímabilinu er afstaðin.
Þetta fór fremur rólega af stað í Röstinni í kvöld en Sigurður Gunnar Þorsteinsson var fljótur að koma sér í villuvesen og var með tvær villur eftir tæplega fimm mínútna leik. Heimamenn náðu samt smá forystu í upphafi leiks en Garðbæingar unnu á, komust í 15-16 eftir þriggja stiga körfu frá Shouse og leiddu svo 17-21 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Páll Axel opnaði annan leikhluta með þrist og minnkaði muninn í 20-21. Lengra komust heimamenn ekki því Garðbæingar léku af hörku, ófeimnir við að fá villur og heimamenn létu dómgæsluna fara í skapið á sér. Töluverð harka var leyfð og á köflum má vel fullyrða að hallað hafi á heimamenn en þeir leystu eins illa úr því og mögulegt er!
 
Jóhann Árni kom með Grindavíkurþrist og minnkaði muninn í 31-36 en því var svarað strax í sömu mynt, svona gekk þetta og ekki leið á löngu uns munurinn var orðinn 10 stig. Liðin gengu svo til hálfleiks í stöðunni 34-46 fyrir Stjörnuna.
 
Justin Shouse var með 11 stig, Cothran og Marvin báðir 8 hjá Stjörnunni í hálfleik en þeir Watson og Þorleifur voru báðir með 7 stig í liði Grindavíkur.
 
Skotnýting liðanna í hálfleik:
Grindavík: Tveggja 36,3%, þriggja 28,5% og víti 85,7%
Stjarnan: Tveggja 57,1%, þriggja 44,4% og víti 83,3%
 
Fyrstu tvö skot Grindavíkur í síðari hálfleik voru við körfuna og þau vildu ekki niður, heimamenn voru einfaldlega með stuttan þráð og einbeitingin tapaðist um leið. Þegar þriðji leikhlut var um það bil hálfnaður fékk Helgi Jónas tæknivíti í herbúðum Grindavíkur eftir samskipti sín við dómara leiksins og áfram héldu heimamenn að lýsa óánægju sinni með dómgæsluna.
 
Jovan hélt Stjörnunni við efnið í þriðja leikhluta, stig hér og hvar en talaði menn áfram og var mótórinn í þessu hjá Stjörnunni, þristur frá honum breytti stöðunni í 38-55 og Stjarnan leiddi svo 45-66 að loknum þriðja leikhluta og héldu heimamönnum í Grindavík í 11 stigum í leikhlutanum.
 
Í fjórða leikhluta var aldrei spurning um hvort liðið færi með sigur af hólmi og þó Grindvíkingar hafi unnið fjórða leikhluta 20-16 þá var skaðinn löngu skeður, Stjörnumenn vildu ekki í sumarfrí og Grindvíkingar fyrir nokkru orðnir hauslausir. Lokatölur voru því 65-82 fyrir Stjörnuna og er þetta það minnsta sem Grindavík hefur skorað í leik á Íslandsmótinu þetta tímabilið!
 
Lykilmenn Grindavíkur að Þorleifi frátöldum voru vart skugginn af sjálfum sér í kvöld og við stöndum við það að vissulega hafi hallað á Grindavík á köflum í dómgæslunni en þannig er boltinn og algerlega furðulegt að fylgjast með gæðunum í þessu liði fjúka út um gluggann við mótlæti í dómgæslunni! Garðbæingar fengu eitt rokkstig í kvöld fyrir frammistöðuna og ef þeir ætla sér að halda áfram á þessari braut er aldrei að vita hvað gerist í leik fjögur á fimmtudag. Jovan kom með 18 stig af Stjörnubekknum eða fimm stigum minna en Grindavíkurbekkurinn til samans í kvöld!
 
Garðbæingar geta vel við unað, héldu sínum takti vel og knúðu fram leik fjögur. Með þessum varnarleik eru þeim allir vegir færir en ætli Teitur Örlygsson þekki ekki sitthvað um úrslitakeppnina og hafi nokkra hugmynd um að sterkt lið á borð við Grindavík býður ekki tvisvar sinnum í röð upp á jafn dapra frammistöðu og þeir gerðu í kvöld.
 
Heildarskor:
 
Grindavík: Þorleifur Ólafsson 16/4 fráköst/6 stolnir, J’Nathan Bullock 12/6 fráköst, Giordan Watson 9/7 stoðsendingar, Ómar Örn Sævarsson 6/5 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 5, Ólafur Ólafsson 5, Ryan Pettinella 5/5 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 3, Björn Steinar Brynjólfsson 2, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 2, Ármann Vilbergsson 0, Þorsteinn Finnbogason 0.
 
Stjarnan: Jovan Zdravevski 18/5 fráköst, Justin Shouse 16/4 fráköst/6 stoðsendingar, Renato Lindmets 14/9 fráköst, Keith Cothran 14, Marvin Valdimarsson 12/11 fráköst, Sigurjón Örn Lárusson 6, Guðjón Lárusson 2, Aron Kárason 0, Christopher Sófus Cannon 0, Dagur Kár Jónsson 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0, Tómas Þórður Hilmarsson 0.
 
Byrjunarliðin:
Grindavík: Giordan Watson, Þorleifur Ólafsson, Jóhann Árni Ólafsson, J´Nathan Bullock og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Stjarnan: Justin Shouse, Keith Cothran, Marvin Valdimarsson, Guðjón Lárusson og Renato Lindmets.
 
Nýting liðanna í leikslok:
Grindavík: Tveggja 39%, þriggja 18,5% og víti 72%
Stjarnan: Tveggja 52,4%, þriggja 50% og víti 85%
 
Umfjöllun og mynd/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -