Það er mikil óvissa í kringum framhaldið hjá Draelon Burns, leikmanni Keflavíkur, sem gat aðeins spilað í rúmar 22 mínútur í öðrum úrslitaleik Keflavíkur og Snæfells í gær. Burns skoraði bara átta stig í leiknum og var greinilega meiddur. Vísir.is greinir frá.
Það er ekki vitað nákvæmlega hversu alvarleg meiðslin hjá Burns eru. Hann var því sendur í skoðun á bráðamóttökunni á sjúkrahúsinu í Keflavík þar sem hann er þessa stundina.
„Hann er verri í dag en hann var í gær sem er slæmt. Við vitum ekki nákvæmlega hvað er að angra hann. Núna virðist þetta vera aðeins stífara og hann er mjög þungur," sagði Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur í samtali við Vísi.



