KR b (Bumban) og Valur b mættust á dögunum í forkeppni Poweradebikarkeppninnar í karlaflokki. Skemmst er frá því að segja að KR b vann leikinn en tapaði honum samt. Valur b kærði leikinn þar sem KR b telfdi fram ólöglegum leikmönnum og því mun Valur b mæta Iceland Express deildar liði Fjölnis í 32 liða úrslitum. KR-ingar eru þó léttir og hafa gert léttleikandi frétt um málið á heimasíðu sinni.
Í fréttinni kemur fram að núverandi ,,einvaldur“ KR b, Jóhannes Árnason, hafi boðist til að segja starfi sínu lausu í kjölfarið en hann var meðal þeirra leikmanna sem ólöglegir voru í leiknum gegn Val, gott ef hann var ekki félagsmaður í Val á meðan hann lék gegn Val b með KR b í forkeppninni. Við birtum hér að neðan frétt KR-inga í heild sinni um málið:
Bumban dæmd úr leik i Bikarnum – Einvaldurinn íhugar stöðu sína
Síðustu helgi áttust við KR B(umban) og Valur B í forkeppni Poweradebikarkeppninnar. Bumban vann glæstan sigur og um leið rétt til að mæta hinu bráðefnilega liði Fjölnis í 32-liða úrslitum. Synir séra Friðriks dóu hins vegar ekki ráðalausir og kærðu leikinn. Jóhannes Árnason hefur í kjölfarið boðist til að segja starfi sínu lausu sem starfandi Einvaldur Bumbunnar.
Það var fríður flokkur leikmanna Bumbunnar sem mætti Val B í Vodaphone-höll Valsmanna að Hlíðarenda sunnudaginn 31 október. Leikmenn Bumbunnar létu ekki búningaleysi setja strik í reikninginn, en starfandi Einvaldur mætti með tómar hendur úr KR heimilinu og léku menn því ýmist í æfingartreyjum eða heimatilbúnum búningum með límband á bakinu. Eftir jafnar upphafsmínútur tóku Bumbumenn yfirhöndina og héldu henni til leiks loka. Hvorki fálmandi Valsarar né flautuglaðir dómarar komu í veg fyrir öruggan sigur Bumbunnar.
Bumbumenn voru sammála um að hið unga og spræka lið Fjölnis væri mjög hentugur mótherji í næstu umferð. Ungir og sprækir piltar sem spila hraðan og skemmtilegan bolta. Árni „Límið“ Blöndal var strax beðinn um að fara í andlegan undirbúning fyrir það verðuga verkefni að hafa hemil á einum fljótasta og efnilegasta bakverði landsins, Ægi Þór Steinarssyni. Á mánudag kom svo reiðarslagið þegar kom í ljós að starfandi Einvaldurinn, Jóhannes Árnason, hafði yfirsést að þrír af þeim sem skipuðu lið Bumbunnar voru ólöglegir, þar á meðal hann sjálfur. Valsmenn kærðu leikinn og mæta því Fjölnismönnum og er óhætt að segja að nýskipaður þjálfari Fjölnismanna andi léttar.
Jóhannes Árnason, starfandi Einvaldur eftir að Lárus Árnason flutti búferlum til Noregs, hefur í kjölfarið boðist til að segja af sér. Venja hefur verið fyrir því að þjálfari Bumbunnar sé rekinn ár hvert eftir að Bumban fellur úr keppni í bikarnum. Þannig hefur Lárus Árnason þrisvar sinnum verið rekinn, Keith Vassel, Hörður Gauti Gunnarsson, Einar Bollason og Lazlo Nemeth allir einu sinni verið reknir hver. Öldungaráð Bumbunnar hefur gefið sér frest til mánudagskvölds til að ákveða hvort Jóhannes eigi framtíð fyrir sér í Bumbunni.
Hvernig sem fer fyrir Jóhannesi er ljóst að fórnarlömbin í þessu máli eru áhugamenn um fagran körfuknattleik sem munu ekki fá að sjá tvö hröðustu lið landsins etja kappi á fjölum DHL-hallarinnar. Þeirra, já og þjóðarinnar, er missirinn.



