Derrick Rose skoraði 39 stig fyrir Chicago Bulls sem lögðu Boston Celtics í nótt, 101-93. Með þessum sigri eru þeir með eins leiks forskot á Toronto Raptors í áttunda sæti austurdeildar NBA þegar einn leikur er eftir, en ef liðin verða jöfn að lokinni deildarkeppni komast Toronto áfram vegna betri árangurs í innbyrðis viðureignum.
Það sem þó skyggi á þennan sigur voru sögusagnir um að John Paxon, varaforseti liðsins og Vinny Del Negro þjálfari (mynd) hefðu lent í ryskingum eftir einn leik liðsins fyrir nokkru. Paxon á að hafa hrint þjálfaranum tvisvar, en enginn hlutaðeigandi vildi tjá sig um málið. Talið er næsta víst að dagar Del Negro hjá félaginu séu taldir, enda hefur hann verið á höggstokknum lengi eftir slakt gengi í vetur.
Á meðan unnu LA Lakers sigur á Sacramento Kings, 106-100, þar sem Pau Gasol fór fyrir liði meistaranna í fjarveru Kobe Bryant, en hann mun snúa aftur í úrslitakeppnina, sem og miðherjinn öflugi Andrew Bynum.
Þá rústuðu Phoenix Suns keppinautum sínum Denver Nuggets, 123-101, og komust með því upp fyrir Nuggets, sem gætu jafnvel fallið niður í fimmta sæti Vesturdeildarinnar ef Utah og Phoenix vinna sína síðustu leiki.
Loks unnu Utah Jazz öruggan sigur á Golden State Warriors, 94-103, en eftir leikinn sagði Don Nelson, sigursælasti þjálfarinn í sögu deildarkeppni NBA að hann muni snúa aftur að ári og þjálfa lið sitt.



