Úrslitakeppni NBA hélt áfram í nótt með tilheyrandi látum. Chicago Bulls héldu austur til Indianapolis og léku þar við heimamenn í Pacers. Bulls höfðu unnið tvo fyrstu leiki seríunnar og verkefni Pacers því þegar orðið æri strembið. Fór svo að Bulls náðu að merja fram sigur í Conseco Fieldhouse, lokatölur 88-84. Derrick Rose skoraði 23 stig fyrir Bulls sem tóku þar með 3-0 forystu í einvíginu, og ljóst að rimmunni er nánast lokið. Sólstrandargæjarnir í Miami Heat héldu hins vegar norður alla leið til borgarinnar sem kennir sig við bróðurást, Philadelphiu. Heat hafði unnið fyrri tvo leikina nokkuð sannfærandi og ljóst að Sixers þyrftu á öllu sínu að halda til að detta ekki í snemmbúið sumarfrí. Það varð þó raunin að Heat unnu sex stiga sigur, lokatölur 100-94. Þríeykið stóra í Miami stóð upp úr og skoraði samtals 75 stig, Wade með 32, James 24 og Bosh með 19 stig. Miami tók því 3-0 forystu í rimmunni og Sixers eru því nokkuð öruggir um sumarfrí. Meira að neðan.
Lokaleikur kvöldsins var svo leikur Dallas Mavericks og Portland Trail Blazers, en leikið var í Portland. Mavericks voru með 2-0 forystu fyrir leik kvöldsins og því að duga eða drepast fyrir Portland, því eins og allir vita hefur ekkert lið í sögunni komið til baka úr seríu eftir að hafa lent 3-0 undir. Blazers tókst þó að koma í veg fyrir að svo yrði með því að vinna Dallas, lokatölur 97-92 fyrir Portland.
Elías Karl