spot_img
HomeFréttirBúist við að Cleveland velji Irving fyrstan

Búist við að Cleveland velji Irving fyrstan

 
Flestir búast við því að Cleveland Cavaliers velji Kyrie Irving fyrstan í nýliðavali NBA deildarinnar. Irving sem ekki hefur lokið háskólagöngu sinni ákvað að taka þátt í nýliðavali NBA deildarinnar þetta árið og þar sem Cleveland mun að öllum líkindum tryggja sér þjónustu kappans hefur samanburðurinn í borginni við LeBron James ekki látið á sér standa.
Cleveland hefur vægast sagt verið í tilvistarkreppu síðan LeBron söðlaði um og hélt til Miami Heat og Irving gæti því verið næsta stórstirnið sem klæðist búningi Cleveland. Þessar pælingar eru þó hugsanlega of snemma á ferðinni þar sem Irving er aðeins 19 ára gamall.
 
Sjálfur kveðst Irving klár í hvern þann samanburð sem kann að koma upp fari hann til Cleveland en hann sagðist fyrst og fremst vilja leggja allt sitt í sölurnar fyrir það félag sem veldi hann í nýliðavalinu.
 
Irving lék 11 leiki fyrir Duke sem ,,freshman“ eða nýliði en var mikið frá vegna támeiðsla. Á meðan hann var fjarverandi vegna meiðsla var hann iðulega í samskiptum við sjálfan LeBron James sem veitti honum góð ráð og blés vindi í seglin hjá þessum 19 ára bakverði.
 
Irving var með 17,5 stig að meðaltali í leik með Duke, þ.e. þá 11 leiki sem hann spilaði með skólanum og reynsla kappans því af skornum skammti en engu að síður eru flestir sem veðja á að hann verði valinn fyrstur í nýliðavalinu.
 
Fréttir
- Auglýsing -