Samkvæmt heimildum Karfan.is hefur dómaranefnd KKÍ kært atvik úr undanúrslitaviðureign Keflavíkur og Snæfells í Poweradebikarkeppni kvenna. Keflavík vann leikinn og mun leika til bikarúrslita gegn annað hvort Grindavík eða Njarðvík sem mætast í kvöld.
Í leiknum virðast dómarar hans hafa misst af atviki þegar Ingunn Embla Kristínardóttir, leikmaður Keflavíkur, sparkar í Gunnhildi Gunnarsdóttur leikmann Snæfells. Ingunni var ekki gerð refsing í leiknum en samkvæmt okkar heimildum hefur dómaranefnd KKÍ nú kært atvikið sem fer þá fyrir aga- og úrskurðarnefnd Körfuknattleikssambandsins.



