spot_img
HomeFréttirBucks munu ekki mæta til fimmta leiks gegn Orlando Magic - Kenosha...

Bucks munu ekki mæta til fimmta leiks gegn Orlando Magic – Kenosha aðeins 60 kílómetra frá Milwaukee

Fimmti leikur einvígis Milwauke Bucks og Orlando Magic í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA deildarinnar átti að byrja nú kl. 20:00 á íslenskum tíma. Leikurinn fór því ekki af stað vegna þess að leikmenn Milwaukee Bucks ætla sér ekki að spila leikinn.

Félagið hefur ekki gefið út ástæðu þessara mótmæla, en næsta víst er að þau séu til þess að mótmæla kerfislægu misrétti sem viðhelst í Bandaríkjunum vegna litarháttar. Þungt vegur atvik sem átti sér stað síðustu helgi þegar að lögreglan í Kenosha, Wisconsin skaut óvopnaðan mann í sjö skipti í bakið, en staðurinn er aðeins tæpa 60 kílómetra frá heimavelli þeirra í Milwaukee.

Liðsmenn Orlando Magic voru mættir til leiks, en eftir að hafa beðið í 15 mínútur héldu þeir einnig til búningsherbergja sinna.

Óvíst er hvernig NBA deildin mun taka á málinu, en með sigri í kvöld hefðu Bucks slegið Magic út og komist í næstu umferð, þar sem að lið Miami Heat bíða þeirra.

Þá er einnig óljóst hvort að leikir Houston Rocket og Oklahoma City Thunder, síðan Los Angeles Lakers og Portland Trail Blazers muni fara fram seinna í kvöld og í nótt.

Fréttir
- Auglýsing -