Enn eitt risakvöldið hjá Brynjari Þór Björnssyni að baki en kappinn hefur leikið glimrandi vel með KR í vetur og nú í kvöld var Brynjar með 32 stig í 87-88 sigri KR á Stjörnunni er liðin mættust í Ásgarði í Iceland Express deild karla. Brynjar skoraði 10 stig á síðustu tveimur mínútum leiksins í kvöld og barði sína menn í KR áfram.
,,Við erum búnir að sýna það núna tvisvar sinnum í vetur að það er karakter í þessu KR liði. Fyrst lentum við svona undir gegn Hamri og nú í kvöld gegn Stjörnunni. Það er hrikalega ljúft að koma svona til baka, það er ekki hægt að segja annað,“ sagði Brynjar í samtali við Karfan.is eftir leikinn.
Tuttugu stigum undir, 76-56, fyrir fjórða leikhluta. Hvað lögðuð þið á ráðin?
,,Bara að leysa leikinn upp í vitleysu, vera ,,kokkí“ og skjóta bara og sem betur fer gekk það eftir í dag því það gengur ekki alltaf upp svo það var svo sannarlega þessi virði að reyna þetta,“ svaraði Brynjar en hvernig líst honum á loksprettinn hjá KR?
,,Keflavík og Snæfell eru næstu tveir leikir, þetta er gott prógramm og flott að fá svona leiki fyrir úrslitakeppnina,“ sagði Brynjar en KR klárar deildarkeppnina með heimaleik gegn Keflavík 15. mars og útileik gegn Snæfell 18. mars.



