spot_img
HomeFréttirBrynjar: Pavel alltaf hrikalegur á góðan hátt

Brynjar: Pavel alltaf hrikalegur á góðan hátt

 
,,Keflvíkingar berja frá sér og maður þarf að vera tilbúinn til þess að taka höggin,“ sagði Brynjar Þór Björnsson sigurreifur eftir að KR tók í kvöld 1-0 forystu gegn Keflavík í undanúrslitum Iceland Express deildar karla. Brynjar setti aðeins einn þrist í 11 tilraunum og hefur oft verið beittari fyrir utan en það kom ekki að sök í kvöld þar sem Pavel Ermolinskij og Marcus Walker stýrðu sýningunni.
,,Marcus átti stórar körfur og Skarphéðinn var með sterka innkomu, hann átti einn sinn besta leik í kvöld og Pavel var eins og hann er, alltaf hrikalegur á góðan hátt svo mér fannst þetta mjög góður sigur,“ sagði Brynjar Þór og gaf lítið fyrir það að menn væru að tala um að Keflvíkingar ættu einhverja leikmenn ,,inni“ eins og oft er sagt. ,,Mér finnst við bara eiga helling inni svo við getum verið jákvæðir fyrir miðvikudaginn,“ sagði Brynjar og vílar það ekki fyrir sér að mæta á heimavöll þar sem Keflvíkingar hafa unnið 11 leiki í röð!
 
,,Þeir eru á ,,rönni“ heima svo það væri fullkomið að fara þangað og taka einn leik, það er alltaf gaman að spila í Keflavík og þessi lið hafa kannski ekki háð marga stórleikina þar enda lítið fundið hvert annað í úrslitakeppninni. Öll mín ár höfum við lítið sem ekkert mætt þeim en samt er góður rígur á milli félaganna en í dag er gott að vera 1-0 yfir,“ sagði Brynjar og markmiðin í Vesturbænum eru engin leyndarmál, fyrirliðinn Fannar Ólafsson hefur fyrir löngu komið þeim á framfæri.
 
,,Fannar kom snemma með þá yfirlýsingu að félagið ætlaði sér að vinna báða stóru titlana og við föllum ekkert frá því, við höfum náð helmingnum af þessu markmiði en svona yfirlýsingar skapa kannski auka pressu en markmiðið er samt alltaf það sama hvort sem þú greinir frá því eða ekki. Stuðningsmenn vilja heyra svona, ekki eitthvað að verið sé að taka einn leik í einu og þar fram eftir götum og því er bara fínt að Fannar hafi stigið fram og opinberað markmið okkar því við trúum á þetta verkefni,“ sagði Brynjar og miðvikudagurinn, hvernig leggst hann í Brynjar?
 
,,Þetta verður fjör, þó allir vilji fimm leiki þá er markmið okkar að klára þetta á föstudag í þremur leikjum, viljum klára þetta fyrir framan okkar fólk.“

Myndasafn úr leiknum í kvöld eftir Tomasz Kolodziejski

Ljósmynd/ [email protected]

 
Fréttir
- Auglýsing -