Brynjar Þór Björnsson hrökk í gírinn þegar KR styrkti í kvöld stöðu sína á toppi Iceland Express deildar karla með 89-77 sigri á Njarðvíkingum. Brynjar sallaði niður 33 stigum í leiknum og fór fyrir sóknarleik Íslandsmeistaranna í síðari hálfleik. Jóhann Árni Ólafsson var atkvæðamestur í liði Njarðvíkinga með 19 stig í kvöld en grænu gestirnir stóðust ekki prófið á lokasprettinum þar sem þeir gerðu aðeins þrjú stig fyrstu átta mínúturnar í fjórða leikhluta. KR hefur nú 26 stig á toppi deildarinnar en Njarðvíkingar eru í 5. sæti áfram með 22 stig og hafa nú tapað þremur deildarleikjum í röð.
Nick Bradford stimplaði gestina inn með þriggja stiga körfu og snögglega leiddu Njarðvíkingar 2-7 og vakti athygli að bæði lið voru með nokkuð breytt byrjunarlið. Hjá Njarðvíkingum byrjuðu Jóhann Árni Ólafsson og Friðrik Erlendur Stefánsson á bekknum en þeir Hjörtur Hrafn Einarsson og Egill Jónasson voru komnir inn í þeirra stað. Í liði KR byrjaði Semaj Inge á bekknum og Finnur Magnússon var kominn inn í byrjunarliðið á nýjan leik.
Eftir rétt rúmar tvær mínútur voru KR-ingar komnir í skotrétt þar sem Njarðvíkingar höfðu á næstum mettíma brotið fimm sinnum á gestgjöfum sínum. Þá áttu dómarar leiksins heldur ekki eftir að syngja sitt síðasta í kvöld.
KR-ingar náðu að komast yfir fljótlega í fyrsta leikhluta en Jóhann Árni Ólafsson hleypti þeim ekki of langt fram úr er hann kom ferskur af bekknum og minnkaði muninn í 17-16 með þriggja stiga körfu. Síðustu mínútur leikhlutans voru í eigu KR-inga sem gerðu 10 stig gegn tveimur frá Njarðvík og því leiddu heimamenn 27-18 eftir fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta skiptu Njarðvíkingar yfir í svæðisvörn enda duldist það fáum að sú vörn hjá Grindavík virkaði vel gegn KR í síðustu umferð deildarinnar. Heimamenn áttu í basli með að finna körfuna og á hinum endanum reyndi Friðrik Stefánsson að brjóta körfuna með tveimur skrímslatroðslum á skömmum tíma og staðan orðin 32-29. Nick Bradford kom Njarðvíkingum svo yfir 40-43 þegar skoraði og fékk villu að auki og gestirnir leiddu 44-50 í hálfleik eftir að Hjörtur Hrafn Einarsson lokaði fyrri hálfleik fyrir græna með stökkskoti í teignum.
Tommy Johnson var með 16 stig í liði KR í hálfleik en Jóhann Árni kom grimmur af bekknum í Njarðvíkurliðinu og var kominn með 14 stig í hálfleik.
Magnús Þór Gunnarsson yljaði Njarðvíkingum um hjartarætur er hann smellti niður dreifbýlisþrist um tvo metra utan við línuna og breytti stöðunni í 44-55. Að svo búnu var Brynjari Þór Björnssyni nóg boðið! Brynjar og Guðmundur Jónsson lentu í klafsi og áttu nokkur orðaskipti og uppskáru báðir tæknivíti og virtist það kynda heldur betur undir Brynjari sem tók leikinn í sínar hendur eftir þetta.
Brynjar minnkaði muninn í 53-57 þegar brotið var á honum í þriggja stiga skoti en þetta var í annað sinn í leiknum sem kappinn náði fjögurra stiga sókn og ekki á hverjum degi sem áhorfendum býðst svoleiðis veisla.
Dómgæslan átti sinn þátt í leiknum í kvöld og kom það ekki af góðu, síður en svo. Fannar Ólafsson sem hafði fengið að leika nokkuð lausum hala í leiknum gerði vel er hann blakaði boltanum ofan í en svo lenti boltinn í höfði Fannars og skoppaði frá. Fyrir vikið fékk Fannar tæknivíti sem var mjög svo óverðskuldað enda engan ásetning að sjá í þessu atviki. Ansi mörg dæmi af svipuðum meiði komu upp í kvöld og röð óíþróttamannslegra villna og tæknivíta setti of mikinn svip á leikinn.
Jón Orri Kristjánsson getur ekki leikið körfubolta án þess að troða og hann brást ekki aðdáendum sínum í kvöld er hann jafnaði metin 64-64 með einni sýningartroðslu. Liðin héldu síðan inn í fjórða leikhluta í stöðunni 70-70 eftir öflugan þriðja leikhluta þar sem hart var barist.
Fjórði leikhluti varð í kvöld að hálfgerðu afstyrmi þar sem eðli leikhlutans svipaði mun meira til þriðja leikhluta þar sigurliðið hefur oftar en ekki lagt grunninn að sigri sínum. Njarðvíkingar voru algerlega ráðalausir gegn sterkri KR vörn og heimamenn efldust við hverja körfu.
Brynjar Þór kom KR 10 stigum yfir 81-71 með þriggja stiga körfu og í næstu sókn bauð Brynjar upp á loftfimleika er hann hoppaði upp gegn engum öðrum en Agli Jónassyni. Brynjar lagði upp í sniðskotið með vinstri hendi en sveiflaði boltanum undir hramma Egils og skoraði með hægri, glæsileg hreyfing sem áhorfendur kunnu vel að meta. Um miðbik leikhlutans var ljóst að Njarðvíkingar þyrftu á nokkurs konar kraftaverki að halda, slík var stemmining í herbúðum heimamanna.
Þegar svo skammt var til leiksloka setti Pavel Ermolinski niður sinn fyrsta þrist fyrir KR á tímabilinu en að meðtöldum leiknum í Grindavík kom þessi þristur hjá Pavel í áttundu tilraun. Lokatölur reyndust svo 89-77 þar sem KR náði innbyrðisviðureigninni af Njarðvíkingum sem unnu fyrri leik liðanna með 8 stiga mun.
Brynjar Þór Björnsson lauk leik með 33 stig og fiskaði 8 villur á Njarðvíkinga. Tommy Johnson bætti við 22 stigum, tók 6 fráköst og stal 4 boltum og þá kom Semaj Inge sterkur af bekknum þar sem hann hóf leikinn og gerði Njarðvíkingum erfitt um vik í sóknarleik sínum. Fannar Ólafsson og Pavel Ermolinski voru báðir með 10 stig og Pavel stjórnaði leik KR liðsins vel og keyrði vel á gestina og var auk stiganna 10 ansi nærri þrennunni með 9 fráköst og 8 stoðsendingar.
Hjá Njarðvík var Jóhann Árni Ólafsson með 19 stig en þeir Nick Bradford og Magnús Þór Gunnarsson voru báðir með 16 stig. Njarðvíkingar hafa nú tapað þremur deildarleikjum í röð, gegn Grindavík, Fjölni og nú KR en þar á undan féllu þeir úr Subwaybikarnum gegn Keflavík og því eru ósigrarnir samtals fjórir í röð.
Dómarar leiksins: Björgvin Rúnarsson og Davíð Hreiðarsson: Settu of mikinn svip á leikinn og fyrir hið óþjálfaða auga dómgæslunnar voru margar ákvarðanir þeirra óskiljanlegar og þá sér í lagi í mörgum tilfellum óíþróttamannslegra villna og tæknivíta. Dómaraparið fékk erfiðan og líkamlegan leik og hefðu vafalaust geta gert betur.



