spot_img
HomeFréttirBrynjar Karl: Fólk á svæðinu hefur átt auðvelt með að eigna sér...

Brynjar Karl: Fólk á svæðinu hefur átt auðvelt með að eigna sér liðið

06:00
{mosimage}

(Brynjar Karl Sigurðsson)

Á aðeins fjórum árum hefur Brynjari Karli Sigurðssyni tekist að gera FSu að úrvalsdeildarliði. FSu mun nú í fyrsta sinn leika í úrvalsdeild þegar Njarðvíkingar koma í heimsókn á Selfoss í opnunarleik Íslandsmótsins. Karfan.is náði tali af Brynjari Karli í gær þegar blaðamanna- og kynningarfundur KKÍ fór fram í Smáranum í Kópavogi. Brynjar sagði að fólk á Selfossi og á nærliggjandi svæðum væri vissulega spennt fyrir vetrinum og að því hefði gengið vel að eigna sér liðið og gera að sínu.

FSu leikur nú í fyrsta sinn í úrvalsdeild. Hvernig leggst þetta verkefni í þig?
Rosalega vel, þetta er skemmtilegra en að vera í 1. deild

Væntanlega nokkuð stórt stökk á milli þessara deilda eða hvað?

Ja… maður myndi ætla að liðin í úrvalsdeild væru aðeins betri.

Þín markmið með liðið?
Það er bara að vinna næsta leik. Það er alltaf þannig hjá okkur. Við vinnum ekki þannig að setja okkur einhver markmið um að komast í úrslitakeppnina. Bara næsti leikur.

Hvernig er tíðarandinn á Selfossi? Þið hafið jafnan verið að fá góða mætingu á heimaleikina ykkar!

Já, ég á von á því að mætingin verði jafnvel betri í ár og að fólk sé nokkuð spennt fyrir þessu. Ég hugsa að fólk megi eiga von á látum í stúkunni í vetur og sérstaklega ef vel gegnur þá verður örugglega allt vitlaust.

Hvað finnst þér um að FSu hafi verið spáð 10. sæti í þjálfara- og fjölmiðlaspánni?
Ég er bara svo nýr hérna að ég hef bara voðalega gaman af þessu. Ég held að þjálfararnir pæli kannski aðeins meira í þessu en leikmennirnir því sálfræðilega skiptir það smá máli hverjar væntingarnar eru og það þarf að taka inn í myndina. Ef leikmennirnir vita það að t.d. Breiðablik sé spáð síðasta sæti þá þarf að útskýra það og ræða það aðeins.

Margir hafa sent sína erlendu leikmenn heim. Hjá FSu er fjöldi erlendra leikmanna en þrír þeirra eru t.d. ungir námsmenn erlendis frá og svo einn Bandaríkjamaður. Stendur það eitthvað til hjá FSu að senda einhverja erlenda leikmenn heim?
Þessir þrír ungu eru t.d. að borga æfingagjöld hjá okkur svo þetta horfir nokkuð öðruvísi við hjá okkur en við erum með kana og ég hef haft þann háttinn á að kanarnir vinna mikið og gott starf fyrir félagið. Þetta er ódýrari týpan af kana hjá okkur og því algert rugl ef við erum að senda menn heim ef við þurfum þess ekki. Menn hafa svona verið að velta því fyrir sér afhverju FSu ætli að vera með kana eins og það eigi að vera normið núna að vera kanalausir en það er ekkert þannig. Við erum ekki með neina landsliðmenn og hin liðin eru t.d. að borga íslenskum leikmönnum þannig að þetta er svona okkar mótvægi í því.

Þið mætið Njarðvík í fyrsta leik, hvernig líst þér á það verkefni?
Það er mjög skemmtilegt að fá Njarðvík svona í fyrsta leik. Maður heyrir það þegar maður er að tala við fólk að það fattar að við erum komin í úrvalsdeild þegar maður segir þeim á móti hvaða liði maður er að fara að spila í fyrsta leik í deildinni.

Þú ert á þínu fjórða ári á Selfossi og kominn með hugmynd sem varð til í kollinum á þér alla leið upp í úrvalsdeild. Er það ekki nokkuð mikið afrek?
Jú jú, ég er búinn að lifa og hrærast í þessu dálítið lengi og án þess að vera að gera eitthvað lítið úr þessu þá er þetta ekki neitt rosalega erfitt.

Nú eru eflaust margir á Suðurlandi sem horfa til ykkar. Finnur þú að miklar vonir séu bundar við gott gengi FSu í vetur?

Já, maður finnur t.d. fyrir smá stemmningu í okkar garð fyrir utan Selfoss og ég held að það séu ekki neitt rosalega mörg lið sem eru í þessu umhverfi. Við erum fulltrúar Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem krakkar alls staðar af Suðurlandi eru í námi svo fólk hér á svæðinu hefur átt nokkuð auðvelt með að eigna sér liðið.

[email protected] 

Fréttir
- Auglýsing -