Þrír leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt. Lakers lögðu topplið Spurs í Staples Center, Chicago lögðu New York á útivelli og Portland lagði Memphis heima. Kobe Bryant fór fyrir Lakers í nótt með 27 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar í 102-93 sigri Lakers gegn San Antonio Spurs. Gary Neal gerði 16 stig fyrir gestina í fjarveru Tony Paker.
Derrick Rose var venju samkvæmt stigahæstur í liði Bulls í nótt þegar kapparnir mættu í Stóra-Eplið og lögðu New York Knicks 90-103. Rose gerði 26 stig fyrir Bulls en hann þykir líklegastur til þess að vera valinn verðmætasti leikmaður deildarkeppninnar í NBA. Carlos Boozer átti einnig sterkan dag í liði Bulls með 14 stig og 22 fráköst. Hjá New York var Carmelo Anthony með 21 stig og 5 fráköst.
LaMarcus Aldridge var með myndarlega tvennu fyrir Portland í nótt, 22 stig og 11 fráköst, þegar Blazers lögðu Memphis Grizzlies 102-89.
Mynd/ Bryant reyndist Spurs erfiður í nótt.