Bandaríski leikmaðurinn Chynna Unique Brown verður ekki með Snæfellskonum á eftir í oddaleik undanúrslitanna gegn Val. Brown hefur verið að glíma við meiðsli allt einvígið gegn Val og staðfesti Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells við Karfan.is áðan að deildarmeistararnir færu inn í viðureign kvöldsins án Brown.
Brown er stigahæsti leikmaður Hólmara með 21,2 stig að meðaltali í leik en hún hefur einnig verið með 8,9 fráköst og 3,4 stoðsendingar svo það er höggvið ansi djúpt skarð í Snæfellsliðið fyrir kvöldið.
Staðan í einvíginu er 2-2 en leikurinn í Stykkishólmi á eftir sker úr um hvort liðið muni leika gegn Haukum til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn.



