spot_img
HomeFréttirBrött brekka framundan hjá Blikum

Brött brekka framundan hjá Blikum

 

Valsmenn náðu 2-0 forystu í kvöld í rimmunni við Blika i umspili 1. deildar karla eftir sætan sigur í Smáranum, 85-90, eftir að staðan hafði verið 33-54, Valsmönnum í vil.

 

Það er óhætt að segja að Hlíðarendapiltar hafi farið hamförum í fyrri hálfleik. Þeir tóku forystuna strax í fyrsta leikhluta og áttu skínandi leik. Boltinn flaut vel á milli manna og greinilegt á öllu að þeir voru tilbúnir í þennan mikla slag. Í öðrum leikhluta völtuðu þeir síðan yfir baráttulausa Blika og gerðu 54 stig í fyrri hálfleik. Frá sjónarhóli Blika er afar hæpið að vinna leik í umspilinu þegar vörnin er jafn slök og raun bar vitni í kvöld i fyrri hálfleik. Reyndar fengu þeir 52 stig á sig í fyrsta leiknum og ljóst að þeir þurfa að átta sig á því að leikurinn er í 40 mínútur. Dagur og Austin voru sjóðandi heitir í stigaskoruninni hjá Völsurum aukinheldur sem Urald King var drjúgur fyrir sveina séra Friðriks.

 

Blikar vöknuðu af Þyrnirósarsvefni sínum í seinni hálfleik, einkum 4. leikhluta. Bræðurnir Egill og Snorri tóku þá til sinna ráða – ásamt fleirum reyndar – og hægt og bítandi náði Kópavogsliðið að saxa á 25 stiga forystu Valsarar og ná muninum niður í 6 stig, 82-88, þegar 1:48 lifði leiks. Loksins var kominn spenna í leikinn og allt á suðurpunkti í Smáranum. Blikar náðu knettinum þegar rúm mínúta var eftir og freistuðu þess að þruma niður þrist og ná muninum niður í 3 stig. Það tókst ekki og brutu þeir á Austin sem fór á vítalínuna. Hann breytti stöðunni úr 82-88 í 82-90 þegar um 30 sekúndur voru eftir. Ragnar Bliki hafði ekki sagt sitt síðasta og skoraði 3ja stiga körfu og staðan 85-90 og rúmar 20 sekúndur eftir að leiknum. Þær náðu Blikar ekki að nýta sér, lokatölur 85-90 og hrósuðu Valsmenn sætum sigri og fögnuðu vel í leikslok.

 

Blikar verða að ná stöðugleika í leik sinn ætli þeir að komast aftur inn í einvígið. Þeir ná af og til ágætum rispum en það er ekki nóg þegar út í umspil er komið. Bestur í liði Blika var Egill sem kom með mikinn kraft í leikinn í síðari hálfleik, Snorri bróðir hans var sprækur líka en Tyrone átti dapran dag og gerði aðeins 17 stig og hitti aðeins úr 2 af 12 þriggja stiga skotum sínum.

 

Valsmenn líta vel út og eru greinilega mjög hungraðir í að komast í úrslitarimmuna um lausa sætið í Dominosdeildinni. Byrjunarliðið þeirra, Dagur, Benedikt, Urald, Austin og Birgir var mjög gott og samstillt  auk þess sem Illugi og Oddur Birnir áttu góða spretti.

 

Næsti leikur í seríunni er upp á líf og dauða fyrir Blika. Hann fer fram mánudaginn 20. mars. Takist heimamönnum að vinna í þeim leik sópa þeir Kópavogspiltum út úr umspilinu og senda þá í snemmbúið sumarfrí. Nú mæta allir Kópavogsbúar í Höllina á mánudaginn – Valshöllina NB – enda ekki annað hægt því strætósamgöngur milli Kópavogs og Hlíðarenda eru með miklum ágætum.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Gylfi Gröndal

Myndir / Bjarni Antonsson

Fréttir
- Auglýsing -