spot_img
HomeFréttirBrittney Jones sjóðheit í Fjölnissigri á Ásvöllum

Brittney Jones sjóðheit í Fjölnissigri á Ásvöllum

Fjölnir gerði sér lítið fyrir og sigraði Lengjubikarmeistara Hauka, 81-84, á Ásvöllum í gærkvöld og þurfa Haukar að bíða enn frekar eftir að landa sínum fyrsta sigri í deildinni í vetur. Brittney Jones var óstöðvandi fyrir Fjölnisstúlkur og innsiglaði sigur Fjölnis í lok leiks með risa körfu.
 
Haukar voru miklu sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og voru um tíma 17 stiga forystu. Fjölnisstúlkur virtust vera eitthvað utan við sig til að byrja með fyrir utan þær Brittney Jones og Katinu Mandylaris sem að voru allt í öllu fyrir gestina. Í hálfleik var staðan 45-30 og fátt sem benti til þess að gestirnir næðu stigunum sem í boði voru.
 
Í seinni hálfleik tóku Fjölnisstúlkur sig saman í andlitinu og byrjuðu jafnt og þétt að minnka mun heimamanna. Fátt gekk upp hjá Haukum á þessum kafla og tapaðir boltar voru of margir á meðan Fjölniskonur virtust hitta úr öllum mögulegum færum.
 
Fjölnir komst yfir 77-79 með körfu frá Brittney Jones og var það í fyrsta sinn sem þær leiddu í leiknum síðan staðan var 0-1.
 
Haukar jöfnuðu með körfu frá Guðrúnu Ámundadóttir en Brittney Jones kláraði leikinn með rosalegu þriggja-stiga skoti þegar um 15 sekúndur voru eftir og þá komst Fjölnir fjórum stigum yfir 79-83. Fjölnir landaði að lokum sigri 81-84.
 
Haukastelpur, sem léku án Gunnhildar Gunnarsdóttur og Söru Pálmadóttur, voru ótrúlega óheppnar í lokin á meðan Fjölnir nýtti allt sitt til að klára leikinn.
 
Brittney Jones gerði 34 stig, tók 5 fráköst og gaf 9 stoðsendingar í liði Fjölnis. Katina Mandylaris bætti við 20 stigum og 14 fráköstum og þá var Birna Eiríksdóttir með 18 stig.
 
Stigahæstar hjá Haukum voru Íris Sverrisdóttir, Elam Hope og Jence Ann Rhoads allar með 18 stig. Hope var jafnframt með 18 fráköst. Margrét Rósa Hálfdanardóttir var með 17 stig.
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -