Skallagrímur hefur samið við Bríet Lilju Sigurðardóttur um að leika með félaginu á komandi tímabili. Bríet kemur frá Tindastól þar sem hún lék með unglingaflokki félagsins á síðustu leiktíð. Hún er 19 ára gömul og er uppalin á Sauðárkróki en lék með meistaraflokki Þór Ak tímabilið 2015-2016. Bríet hefur leikið með U16 og U18 landsliðum Íslands síðustu ár og var í U16 liðinu sem varð Norðurlandameistarar árið 2014.
Bríet var einnig valin í úrvalslið 1. deildar kvenna fyrir tveimur árum en þá lék hún með Tindastól. Hún hefur nú ákveðið að flytja í Borgarnes og leika með félaginu í Dominos deild kvenna. Skallagrímur sem var nýliði í Dominos deild kvenna á síðasta tímabili og komst í úrslit bikarkeppninnar og undanúrslit íslandsmótsins.
Á dögunum réð félagið Richi Gonzalez til að þjálfa liðið auk þess sem liðið heldur svipuðum kjarna og á síðasta tímabili. Auk þess samdi stigahæsti leikmaður Domiinos deildarinnar Carmen Tyson-Thomas við liðið á dögunum.