spot_img
HomeBikarkeppniBreytingar á bikarkeppni karla - Drátturinn ógildur og öll lið Dominos fara...

Breytingar á bikarkeppni karla – Drátturinn ógildur og öll lið Dominos fara áfram

KKÍ ákvað á fundi sínum í gær að breyta tilhögun bikarkeppni karla. Munu breytingarnar ekki ná til bikarkeppni kvenna, þar sem leikar hefjast í 16 liða úrslitum.

Fréttatilkynningu sambandsins er hægt að lesa hér fyrir neðan, en í henni er kveðið á um að bikardrætti 32 liða úrslita skuli ógildur og búin verði til sérstök undankeppni fyrir neðri deildir, en lið Dominos deildar karla fari beint í 16 liða úrslitin.

Fréttatilkynning KKÍ:

Stjórn KKÍ ákvað á fundi sínum fimmtudaginn 22. október breytingar á fyrirkomulagi bikarkeppni karla. Umræddar breytingar ná ekki yfir bikarkeppni kvenna þar sem konurnar fara beint í 16 liða úrslit.

Ákvörðun stjórnar snýr að því að ógilda þann bikardrátt er fram fór 1. október sl. og leika sérstaka undankeppni 1. deildarliða að 16 liða úrslitum bikarkeppni KKÍ, en öll 12 lið Domino’s deildar karla fara beint í 16 liða úrslit keppninnar. Þetta þýðir að lið úr 2. og 3. deild karla taka ekki þátt í bikarkeppninni þetta tímabilið.

Það stefnir í þéttara leikjaprógram í Domino’s og 1. deildum karla og kvenna eftir þær samkomutakmarkanir sem verið hafa í gildi síðustu vikur, en við það fækkar mögulegum leikdögum bikarkeppninnar. Stjórn KKÍ tók því þá erfiðu ákvörðun að gera þessar breytingar á bikarkeppninni sem gilda aðeins þetta tímabilið og eiga aðeins við um bikarkeppni karla.

Fyrirkomulagið verður eftirfarandi:

  • Öll lið Domino’s deildar karla fara beint í 16 liða úrslit bikarkeppninnar.
  • Öll lið 1. deildar leika undankeppni meðan landsleikjagluggi karla stendur yfir um að komast í 16 liða úrslit bikarkeppninnar. Undankeppnin fer svona fram:
    • Leikin er forkeppni milli tveggja liða 1. deildar karla. Það kemur ljós í bikardrættinum hvaða tvö lið þurfa að leika forkeppni.
    • Það lið sem vinnur leikinn í forkeppni kemst í pottinn með þeim 7 liðum 1. deildar karla sem eftir eru. Dregið verður um hvaða lið mætast, en þau fjögur lið sem vinna komast í 16 liða úrslit bikarkeppni KKÍ.

Það er miður að taka hafi þurft ákvörðun sem þessa um bikarkeppni KKÍ, en ekki þykir fært að finna aðra leikdaga fyrir bikarkeppni KKÍ, eða seinka fleiri leikdögum í Domino’s deild karla lengra inn í tímabilið. Mat stjórnar var því að þetta væri illskársti kosturinn af þeim sem fyrir lágu.

Fréttir
- Auglýsing -